Íslenska sundfólkið landaði þriðja Íslandsmetinu á heimsmeistaramótinu í 25 metra laug í Doha höfuðborg Katar í dag. Áður höfðu þær Eygló Ósk Gústafsdóttir og Inga Elín Cryer sett met í einstaklingsgreinum dagsins.
Stelpu- og strákasveit Íslands setti landssveitarmet í undanrásum 4 x 50 metra fjórsunds blandaðra liða sem fór fram í dag en íslenska liðið náði þar sextánda sæti af 26 liðum.
Í íslensku sveitinni syntu Eygló Ósk Gústafsdóttir (baksund), Hrafnhildur Lúthersdóttir (bringusund), Daníel Hannes Pálsson (flugsund) og Davíð Hildiberg Aðalsteinsson (skriðsund).
Íslenska sveitin kom í mark á 1:46.56 mínútum en gamla metið var 1:48,72 mínútur og sett í Frakklandi árið 2012.
Davíð Hildiberg Aðalsteinsson kom þarna að öðru Íslandsmeti í boðsundi á mótinu en hann hjálpaði karlasveitinni að setja met í 4 x 100 metra skriðsundi í gær.
