Ef þú ert í sambandi og þið veltið þessu fyrir ykkur þá er gott að byrja á því að deila fantasíunni og ræða opinskátt um hana. Sumum nægir að nota fantasíuna í koddahjali og bæta aldrei raunverulega annarri manneskju við kynlífið. Þetta er vandasamt svo það er margt sem þarf að skoða áður en boðið er uppí rúm.
Trekant eða hópkynlíf getur farið fram innan sambands eða utan þess og er hvatinn misjafn, allt frá því að langa til að krydda sambandið eða til að finna afsökun fyrir sambandsslitum.
Kynlíf með nokkrum einstaklingum er flókið fyrir þær sakir að það þarf að passa upp á samþykki allra auk þess að gæta að notkun viðeigandi verja, eins og smokksins.

Þá er einnig mikilvægt að setja leikreglur.
Hver má gera hvað við hvern?
Gilda sömu reglur óháð kyni, kynvitund og kynhneigð?
Hvers konar kynlíf er í lagi? (Munnmök, samfarir og þess háttar)
Hvaða verjur skal nota? (Aukin hætta er á kynsjúkdómasmiti)
Hvað gerist að loknu kynlífinu? (Gista bólfélagarnir eða fer hver og einn bara heim?)
Hver er sambandsstaða allra og eru allir samþykkir og með á hreinu hvernig þeir standa gagnvart hvort öðru?
Eins og með allt kynlíf, talið saman og hafið á hreinu hvað má og hvað ekki og hvað gerist svo í framhaldinu.