Að meðaltali er höfuð rúm fimm kíló að þyngt. En með því að halla höfðinu fram og horfa niður á símtæki er sett allt að 25 kílóa álag á hrygg fólks.
Í niðurstöðum rannsóknar Kenneth K. Hansraj, sem er yfirmaður mænuaðgerða á sjúkrahúsi í New York, segir að nánast ómögulegt sé að forðast þá tækni sem veldur þessu álagi. Þess í stað leggur hann til að fólk passi upp á að horfa á skjái síma sinna með hálsinn í hlutlausri stöðu og að forðast að horfa niður klukkutímum saman á hverjum degi.
Á vef Guardian segir að meðal einstaklingur lúti höfði í allt að tvo til fjóra tíma á dag.Það samsvari 700 til 1400 klukkustundum á ári þar sem aukaálag er á hrygg fólks. Unglingar eru þeir sem eyða hvað mestum tíma í símum sínum og gæti það samsvarað allt að fimm þúsund klukkustundum á ári.
Guardian segir eymsli í hálsum vegna snjallsíma og spjaldtölva fara fjölgandi í Bretlandi. Slíkt getur valdið höfuð- og hálsverkjum, verkjum í handleggjum og doða. Sjúkraþjálfari sem rætt er við bendir fólki á að hringja frekar og notast við raddstýringu síma.
Félag sjúkraþjálfara í Nýja-Sjálandi segir að nauðsynlegt sé að fræða fólk um hvernig nota má þessi tæki án þess að auka álag á líkamanum.
