Innlent

Íslendingar heppnir með veður

Samúel Karl Ólason skrifar
Einstaklega mild veðurtíð hefur verið á Íslandi undanfarnar vikur og hlýtt í veðri. Veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir Íslendinga heppna með stöðu helstu veðrakerfa í kringum landið. Að lægðir komist ekki sínar hefðbundnu leiðir að landinu.

Hæð við Noreg heldur lægðum frá Íslandi og dælir hlýju lofti frá Evrópu til landsins. Þá er föst lægð við Hvarf, syðsta odda Grænlands, sem dælir suðaustan- og austanáttum til landsins.

Á meðan hæðin við Noreg helst á sínum stað munu Íslendingar búa áfram við þetta milda veður. Næstu vikuna mun veðrið að öllum líkindum haldast svipað. Þó mun hæðin á endanum gefa sig og kaldara veður mun koma til landsins.

Samkvæmt Veðurstofu Íslands, kemur þessi staða upp annað slagið á mismunandi tímum á veturna. „Það verður bara að njóta þess á meðan hægt er.“

Gunnar V Andrésson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, tók meðfylgjandi myndir á Snæfellsnesi um liðna helgi. Á þeim sést bersýnilega hve gott veðrið var þar um helgina.

Frá Arnarstapa.Vísir/GVA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×