Handbolti

Snorri Steinn valinn í Stjörnuleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson.
Snorri Steinn Guðjónsson. Vísir/Stefán
Snorri Steinn Guðjónsson, leikstjórnandi íslenska landsliðsins í handbolta og leikmaður franska liðsins Sélestat, var valinn í Stjörnuleikinn í franska handboltanum en leikurinn fer fram fjórum dögum fyrir jól.

Snorri Steinn er eini íslenski leikmaðurinn sem var valinn en þrír aðrir landsliðsmenn, Róbert Gunnarsson, Arnór Atlason og Ásgeir Örn Hallgrímsson, leika í frönsku deildinni.

Þetta er mikill heiður fyrir okkar mann sem hefur farið á kostum á fyrsta tímabili sínu með Sélestat en Snorri Steinn er nú aðeins einu marki frá því að vera markahæsti leikmaður deildarinnar.

Stjörnuleikurinn í franska handboltanum fer nú fram í annað skipti en hann er spilaður á milli úrvalsliði franskra leikmanna og úrvalsliði erlendra leikmanna. Leikurinn fer fram 20. desember í Montpellier og verður væntanlega það síðasta sem Snorri Steinn gerir áður en hann kemur heim í jólafrí.

Kosningin á liðunum fór bæði fram í gegnum netið sem og að sérstök valnefnd blaðamanna og fólks úr frönsku handboltafjölskyldunni valdi leikmenn í liðin. Snorri Steinn er annar tveggja leikstjórnanda erlenda liðsins en hinn er Argentínumaðurinn Diego Simonet sem spilar með toppliði Montpellier.

Í byrjunarlið úrvalsliðs franska liðsins eru þeir Thierry Omeyer (Paris), Michaël Guigou (Montpellier), Nicolas Claire (Nantes), Luka Karabatic (Aix), Valentin Porte (Toulouse) og Luc Abalo (Paris) en í byrjunarliði úrvalsliðs erlendra leikmanna eru þeir Gorazd Skof (Nantes), Valero Rivera (Nantes), Diego Simonet (Montpellier), Miha Zvizej (Toulouse), Vid Kavticnik (Montpellier) og Dragan Gajic (Montpellier).

Varamenn franska liðsins eru Vincent Gérard (Dunkerque), Hugo Descat (Créteil), Mathieu Grébille (Montpellier), Daniel Narcisse (Paris), Mathieu Lanfranchi (Cesson-Rennes), Adrien Di Panda (Saint-Raphaël) og Cédric Paty (Chambéry) en auk Snorra Steins þá eru í úrvalsliði erlendra leikmanna þeir Aljosa Rezar (Tremblay), Nemanja Ilic (Toulouse), Pawel Podsiadlo (Nîmes), Mohamed Mokrani (Dunkerque), Jorge Maqueda (Nantes) og Jalel Touati (Dunkerque).

Vísir/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×