Handbolti

Tíu marka sigur í frumraun Guðmundar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Guðmundur Guðmundsson fer vel af stað í starfi sínu sem landsliðsþjálfari Danmerkur en liðið vann í kvöld öruggan tíu marka sigur á Litháen, 31-21.

Staðan í hálfleik var 16-8, Dönum í vil, og sigurinn því aldrei í hættu. Guðmundur tók við starfi landsliðsþjálfara fyrr á þessu ári og hætti með þýska liðið Rhein-Neckar Löwen í vor.

Hann var sem kunnugt er landsliðsþjálfari Íslands með góðum árangri og vann til að mynda til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og bronsverðlauna á EM í Austurríki tveimur árum síðar.

Danska liðið spilaði vel í kvöld. Varnarleikurinn var sérstaklega öflugur, sem og Niklas Landin í markinu.

Úrslit annarra leikja í undankeppni EM 2016 voru eftir bókinni. Króatía vann Holland (35-24), Svíþjóð hafði betur gegn Lettlandi (33-23) og Frakkar lentu ekki í vandræðum með Tékkland (41-25).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×