Enski boltinn

Ronaldo: El Clasico ætti að vera á sunnudag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Cristiano Ronaldo, stórstjarna Real Madrid, er óánægður með að stórslagur liðsins gegn Barcelona, El Clasico, fari fram á laugardaginn um helgina.

Fremur vill hann að leikurinn fari fram á sunnudag enda spilaði Real gegn Liverpool í Meistaradeild Evrópu í gær. Barcelona lék í Meistaradeildinni á þriðjudag og fær því lengri tíma til að undirbúa sig fyrir leikinn.

„Ég skil ekki af hverju við erum að spila á laugardag,“ sagði Ronaldo eftir leikinn gegn Liverpool í gær. „Þeir hugsa ekki um smáatriðin og El Clasico er mikilvægasti leikur ársins.“

„Ég fatta þetta ekki. Það þarf að hugsa um El Clasico sérstaklega. Það er heilmikill munur á því að fá tvo daga til að undirbúa sig fyrir leik en þrjá. Það eru allir atvinnumenn í knattspyrnu sammála um.“

Að venju er mikið gert úr einvígi Ronaldo og Lionel Messi, leikmanns Barcelona. „Ég er ekki að spila gegn Messi. Ég er að fara að spila gegn Barcelona sem er með frábært lið. Real Madrid og Barcelona eru að fara að spila gegn hvoru öðru.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×