Handbolti

Landin: Færri myndbandsfundir eftir að Guðmundur hætti

Tómas Þór Þóraðrson skrifar
Niklas Landin fær áfram langa myndbandsfundi hjá Guðmundi Guðmundssyni hjá danska landsliðinu.
Niklas Landin fær áfram langa myndbandsfundi hjá Guðmundi Guðmundssyni hjá danska landsliðinu. vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen tekur á móti Kiel á morgun í stórleik og toppslag í þýsku 1. deildinni í handbolta. Leikurinn hefst klukkan 14.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Ljónin eru á toppi deildarinnar með 18 stig, en þau eru búin að vinna níu leiki af tíu. Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar eru í öðru sæti með 16 stig, en þeir hafa unnið átta leiki af tíu.

Niklas Landin, markvörður Löwen og danska landsliðsins, hefur verið frábær í vetur eins og svo oft áður, en hann verður í furðulegri stöðu á morgun.

Landin er nefnilega búinn að semja við Kiel eins og gerist og gengur í þýskum íþróttum og spilar gegn liðinu sem hann gengur í raðir næsta sumar.

„Það er alltaf sérstakt að spila á móti Kiel, sérstaklega núna þegar það er uppselt. Þetta verður magnaður leikur,“ segir Landin í viðtali á Handball-world, en sumir sérfræðingar halda því fram að leikirnir á milli þessara liða í vetur muni skera úr um sigurvegara í deildinni þegar uppi er staðið.

„Auðvitað verður svakalega sterkt fyrir okkur að ná tveimur stigum af Kiel, en þau telja jafnmikið og stig gegn Wetzlar og Erlangen. Það gefur okkur samt mikið sjálfstraust að vinna Kiel og það viljum við gera á laugardaginn.“

Aron Pálmarsson og Filip Jícha (lengst til hægri) verða ekki með á morgun vegna meiðsla.vísir/getty
Kiel verður án Arons Pálmarssonar og Tékkans Filips Jícha, tveggja af bestu leikmanna heims, en Landin gefur Kiel-liðinu þó engan afslátt.

„Þrátt fyrir það er Kiel með nóg af heimsklassa leikmönnum. Svo sterkur er hópurinn hjá því. Það er með svo marga topp leikmenn og allir vilja spila. Þegar aðrir menn fá tækifæri hvetur það þá til dáða,“ segir Landin.

Guðmundur Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands, lét af störfum sem þjálfari Rhein-Neckar Löwen í sumar og tók við danska landsliðinu. Daninn NicolajJacobsen, sem áður þjálfaði Álaborg, tók liðinu og Landin er fljótur til svars aðspurður hver munurinn á þeim tveimur er.

„Eitt er víst að Nicolaj er ekki með jafnmarga myndbandsfundi og Guðmundur,“ segir Landin og hlær, en Guðmundur er þekktur fyrir að vilja fara ítarlega yfir málin á löngum myndbandsfundum eins og landsliðsmönnum Íslands hefur verið tíðrætt um.

„Báðir vilja samt vinna leikina og eru á fullu þó við séum tíu mörkum yfir. Þá vilja þeir komast ellefu mörkum yfir,“ segir Niklas Landin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×