Handbolti

Sænskur handboltamaður lá líflaus á vellinum í miðjum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joacim Ernstsson.
Joacim Ernstsson. Mynd/Heimasíða Lugi
Leik Lugi og Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta var hætt í kvöld eftir að einn leikmaður Lugi-liðsins, datt líflaus í gólfið.

Atvikið gerðist eftir fjórtán mínútur en staðan var þá 4-10 fyrir Kristianstad. Ernstsson var búinn að nýta eina skotið sitt í leiknum.

Joacim Ernstsson lá þá hreyfingalaus á vellinum og ranghvolfdi augunum. Sem betur fer komu læknir liðsins og annar læknir sem var á leiknum, honum til bjargar en þeim tókst að fá hjarta hans aftur til að slá.

Hinn læknirinn á vellinum var hjartalæknir og þeim tókst að lífga Ernstsson við með hjálp frá hjartastuðtæki.

Leikmenn reyndu fyrst að koma Ernstsson til bjarga en hann var síðan fluttur í burtu í sjúkrabíl og leikurinn var flautaður af.

Það er hægt að sjá myndir af þessu í frétt Aftonbladet um atvikið í Lugi í kvöld. Enginn íslenskur handboltamaður leikur með þessum liðum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ernstsson missir meðvitund í leik en það gerðist einnig í bikarúrslitaleiknum í fyrra. Ernstsson stóðst hinsvegar allra rannsóknir og fékk leyfi til að spila á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×