Innlent

Veðurstofan varar ökumenn við snjókomu og stormi

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Hiti verður kominn undir frostmark um mestallt land á morgun.
Hiti verður kominn undir frostmark um mestallt land á morgun. Vísir / Anton
Veðurstofa Íslands hefur sent frá sér viðvörum þar sem vakin er athygli á að fyrsta alvöru snjókoma haustsins á norðanverðu landinu er í vændum á morgun. Spár gera ráð fyrir vaxandi lægð yfir landinu í dag en að lægðin þokist austur fyrir land á morgun með kaldri norðanátt í kjölfarið.

Samkvæmt spá veðurstofunnar hvessir fyrst á Vestfjörðum í nótt og fer að snjóa. Um hádegi á morgun má svo búast við norðan hvassvirði eða stormi. Snjókoma verður þá á Vestfjarðarkjálkanum og austur með norðanverulandinu að Melrakkasléttu.

Reiknað er með að dálítill snjór slæðist suður á Faxaflóasvæðið en mun hægari vindur verður sunnan- og austanlands framan af degi. Hvessir þó seinnipartinn. Á mánudagskvöld er svo útlit fyrir norðan og norðvestan hvassvirði eða stormi víða um landið og búast má við samfelldri snjókomu um allt norðanvert landið. Hiti verður þá kominn undir frostmark um mestallt land.

Veðurstofan bendir þeim sem aka þurfa á milli landshluta að ágætt veður sé til þess í dag en slík ferðalög gætu verið erfið á morgun. „Ferðalög milli landshluta geta orðið erfið á mánudag og þriðjudag, einkum á norðurhelmingi landsins. Þetta á sérílagi við bíla sem eru vanbúnir til vetraraksturs,“ segir í viðvöruninni.

Á þriðjudag er útlit fyrir allhvassa eða hvassa norðvestanátt en stormi á norðaustur- og austurlandi. Úrkomulítið verður á Vestfjörðum en búast má við snjókomu frá Húnaflóa og austan með landinu. Frost á þriðjudeginum verður víða á bilinu 0 til 4 stig, samkvæmt tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×