Innlent

Vill að þinginu sé tryggð aðkoma að ákvörðunum um stuðning við hernað

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Vísir / Einar
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýndi í dag það fyrirkomulag að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra gæti sjálfur tekið ákvörðun um að lýsa yfir stuðningi við hernaðaraðgerðir án aðkomu þingsins. Vísaði hún þar til stuðningsyfirlýsingu Íslands við aðgerðir gegn samtökunum Íslamska ríkið.

Íslensk lög gera ekki ráð fyrir því að málið sé sett fyrir þing og er nóg fyrir ráðherra að kynna utanríkismálanefnd ákvörðun sína á lokuðum fundi, samkvæmt Steinunni. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði utanríkisráðherra hinsvegar hafa haft samráð við utanríkismálanefnd áður en ákvörðunin var tekin.

Bandaríska utanríkisráðuneytisins birti nýverið skjal frá 19. september þar sem fjölmörg ríki voru listuð sem styðja aðgerðir Bandaríkjastjórnar gegn samtökunum. Ísland var ekki á listanum en öll hin Norðurlöndin voru þar.

Þegar Vísir sendi fyrirspurn um málið til utanríkisráðuneytisins í lok september. Í svari ráðuneytisins kom fram að ekki hafi verið leitast eftir því að Ísland yrði á lista yfir stuðningsríki aðgerðanna. Þá kom hinsvegar skýrt fram að stuðningur væri fyrir hendi.

„Ísland styður að brugðist sé við þeim skelfilegu ódæðisverkum sem ISIS samtökin standa fyrir,“ sagði í svarinu en að Ísland væri herlaust ríki og myndi ekki leggja af mörkum til hernaðaraðgerða vegna árása á ISIS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×