Handbolti

Fram Reykjavíkurmeistari kvenna

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Fram tryggði sér i gærkvöldi Reykjavíkurmeistaratitilinn í handbolta kvenna þegar liðið lagði Fylki 32-30 í síðasta leik keppninnar.

Fram lék við hvern sinn fingur í fyrri hálfleik í leiknum í gær og var átta mörkum yfir í háflfleik 22-14.

Ekki var sami taktur í sóknarleik Fram í seinni hálfleik og Fylkir náði að minnka muninn í seinni hálfleik en Fram tryggði sér sigur í lokin en liðið vann alla þrjá leiki sína í mótinu og lauk leik með fullt hús stiga.

Það tók því Stefán Arnarson nýráðinn þjálfara liðsins ekki langan tíma að vinna sitt fyrsta mót með liðið en hann gerði Val að Íslands- og bikarmeisturum á síðustu leiktíð.

Sigurbjörg Jóhannsdóttir og Ragnheiður Júlíusdóttir skoruðu 7 mörk hvor fyrir Fram, Marthe Sördal skoraði 5 mörk og Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir 4.

Hjá Fylki skoraði Patricia Szölösi 8 mörk og þær Ólöf Kristín Þorsteinsdóttir, Vera Pálsdóttir og Thea Imani Sturludóttir 4 mörk hver.

Valur varð í öðru sæti í Reykjavíkurmótinu með 4 stig, Fylkir fékk 2 stig og ÍR lauk leik án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×