Handbolti

Tuttugu marka sigur hjá Haukum í Hafnafjarðarslagnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Marija Gedroit, stórskytta Hauka, skoraði fjögur mörk.
Marija Gedroit, stórskytta Hauka, skoraði fjögur mörk. vísir/valli
Hafnarfjörður verður svo sannarlega rauður í kvennahandboltanum næstu vikurnar eftir tuttugu marka sigur Hauka á FH í Hafnafjarðarslagnum í Olís-deild kvenna í kvöld, 31-11.

FH átti ekki möguleika í firnasterkt Hauka-liðið sem var tíu mörkum yfir í hálfleik, 15-5, en FH skoraði svo ekki mark fyrstu sjö mínúturnar í seinni hálfleik.

Til að fullkomna sigurinn hjá Haukum skoruðu allir útileikmennirnir í leiknum, en 31. markið kom úr hraðaupphlaupi eftir að gestirnir unnu boltann í vörninni.

Varnarleikur Haukastúlkna var virkilega sterkur allan leikinn og eins og sjá má á lokatölunum komst FH-liðið lítt áleiðis gegn henni.

Haukar svo sannarlega til alls líklegir í Olís-deild kvenna í vetur, en FH-stúlkur þurfa að skoða sinn gang.

„Við köstuðum bara inn handklæðinu. Það var vitað, að liðið sem væri að berjast og henda sér á boltana myndi vinna leikinn. Þetta var bara hneysa,“ sagði MagnúsSigmundsson, þjálfari FH, í viðtali við RÚV eftir leikinn.

Mörk FH: Sigrún Jónsdóttir 3, Ingibjörg Pálmadóttir 3, Birna Íris Helgadóttir 2, Heiðdís Rún Gunnlaugsdóttir 1, Aníta Mjöll Ægisdóttir 1, Alana Elín Steinarsdóttir 1.

Mörk Hauka: Karen Helga Díönudóttir 9, Áróra Eir Pálsdóttir 4, Marija Gedriot 4, Gunnhildur Pétursdóttir 3, Silja Ísberg 2, Viktoría Valdimarsdóttir 2, Ragnheiður Sveinsdóttir 2, Kolbrún Gígja Einarsdóttir 1, karen Ósk Kolbeinsdóttir 1, Ragnheiður Ragnarsdóttir 1, Agnes Ósk Egilsdóttir 1, Ásta Björk Agnarsdóttir 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×