Innlent

Minnihluti ánægður með veðrið í sumar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ánægja með veðrið eftir landshlutum.
Ánægja með veðrið eftir landshlutum. Mynd/MMR
92 prósent Íslendinga á Norðaustur- og Austurlandi voru ánægð með veðrið í sumar en aðeins 37 prósent Reykvíkinga. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem var framkvæmd 25. - 29. ágúst. Rúmlega 45 prósent landsmanna voru ánægð með sumarveðrið í sumar sem er svipað og í fyrra. Sumarið 2012 voru hins vegar rúm 96 prósent landsmanna sátt með veðrið.

Eins og sjá má á myndinni að ofan voru ansi skiptar skoðanir um ágæti veðursins í sumar enda veðrið öllu betra norðan heiða og á Austurlandi en á suðvesturhorninu.  Þeir sem voru búsettir á Norðaustur- og Austurlandi voru ánægðastir með veðrið í sumar en þeir sem bjuggu í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur voru síst ánægðir með veðrið í sumar.

Heilt yfir lagðist veðrið í sumar sambærilega í landsmenn og veður síðasta sumars (mælt í ágúst 2013). Sumrin 2014 og 2013 lögðust nokkuð verr í landsmenn heldur en sumrin 2010, 2011 og 2012. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 45,4% vera frekar eða mjög ánægð með veðrið í á Íslandi í sumar, borið saman við 44,9% sumarið 2013 og 96,3% sumarið 2012 (mælt í september).

Spurt var: „Hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) ert þú með veðrið á Íslandi í sumar (*„Veðrið að undanförnu“). Svarmöguleikar voru mjög ánægð(ur), frekar ánægð(ur), frekar óánægð(ur), mjög óánægð(ur), á ekki við og veit ekki/vil ekki svara. Samtals tóku 97,5% afstöðu til spurningarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×