Lífið

Hugfanginn af íslensku landslagi

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
„Ég hef verið svo heppinn að heimsækja Ísland, í mars árið 2012 og í mars í fyrra. Í bæði skipti var ég hugfanginn af landslaginu,“ segir breski leirlistamaðurinn Andrew Macdermott. Hann hefur búið til heila línu af keramikskálum sem heitir einfaldlega Iceland Collection og eru innblásin af íslensku landslagi.

„Mig langaði að fanga það sem ég sá á Íslandi í keramikskálum og –diskum. Það sem veitir mér sérstaklega mikinn innblástur er djúpblái liturinn í Geysi, svartar strendur í Vík í Mýrdal og Gunnuhver á Reykjanesi,“ segir Andrew og lýsir náttúru Íslands sem hrárri og ósáttfúsri.

List Andrews í íslenskri náttúru.mynd/úr einkasafni
Listamaðurinn er búinn að breyta bílskúrnum heima hjá sér í stúdíó og vinnur að listinni eingöngu þar. Hann er mikill Íslandsvinur og hefur ekki fengið nóg af íslenskri náttúru.

„Ég vonast til að snúa aftur til Íslands bráðlega og sjá meira af ykkar fallegu eyju.“

Andrew á vinnustofu sinni.mynd/úr einkasafni





Fleiri fréttir

Sjá meira


×