Innlent

Ekkert sólskin í kortunum: Reykvíkingar sjá næst til sólar eftir níu daga

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Búum okkur undir meiri rigningu næstu daga.
Búum okkur undir meiri rigningu næstu daga. Mynd/Veðurstofan
Höfuðborgarbúar munu næst sjá gula stjörnu, sem sást gjarnan hér áður fyrr á sumrin og gengur undir nafninu sólin, þann 25. júlí. Þetta kemur í ljós ef langtímaspá norsku veðurstofunnar yr.no er skoðuð.

Reyndar mun sólin rétt gægjast upp fyrir skýin nokkra daga þangað til. En eftir níu daga munu Reykvíkingar, samkvæmt þessari spá, fá almennilegt sólskin sem varir lengur en fáeinar klukkustundir.

Hitastigið verður þó alltaf yfir tíu stig þessa daga.

Veðrið verður svipað í Vestmannaeyjum og á Ísafirði, samkvæmt þessari langtímaspá norsku veðurstofunnar. Á Akureyri og Egilsstöðum verður þó mun sólríkara. Í næstu viku gæti hitinn farið í tuttugu gráður.

Á mánudaginn er gert ráð fyrir því að veðrið á Egilsstöðum verði gott; léttskýjað og hitinn um tuttugu stig. Á þriðjudaginn verður heiðskýrt og tuttugu stiga hiti á Akureyri.

Veðurspá Veðurstofu Íslands fyrir næstu daga er svipuð og þeirrar norsku. Mikil rigning verður víða um land í næstu viku. Veðurspá Veðurstofunnar lítur svo út:

Á föstudag:

Suðaustan 8-13 m/s og rigning, en þurrt og bjart NA-lands. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast á NA-landi. 

Á laugardag:

Suðaustan 5-10 m/s, skýjað og lítilsháttar rigning með köflum, en úrkomulítið NA-lands. Hiti 12 til 20 stig, hlýjast fyrir norðan. 

Á sunnudag:

Austlæg átt 3-8 m/s, skýjað með köflum og úrkomulítið, en dálítil væta við S- og A-ströndina. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast V-til. 

Á mánudag og þriðjudag:

Lítur út fyrir suðaustlæga átt með vætu víða um land en þurrt og hlýtt fyrir norðaustan. Hiti 12 til 20 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×