Þórir Ólafsson gæti leikið sinn síðasta leik fyrir pólsku meistarana í Kielce í dag. Kielce sækir Wisla Plock heim í úrslitum pólska handboltans í kvöld.
Kielce er 2-0 yfir í úrslitaeinvíginu eftir tvo sigra á heimavelli en þrjá sigra þarf til að hampa titlinum.
Þórir staðfesti í samtalið við Vísi að vinni Kielce í kvöld verði það síðasti leikur hans fyrir félagið og að það séu meiri líkur en minni að hann sé á heimleið.
Fjölskylda Þóris er nú þegar flutt heim og gæti aðeins mjög gott tilboð erlendis komið í veg fyrir að hann leiki hér heima á næsta tímabili.
Þórir hefur nú þegar heyrt í liðum hér heima en Þórir segir engar samningaviðræður hefjast fyrr en að tímabilinu í Póllandi loknu.
Þórir er frá Selfossi og lék með uppeldisfélagi sínu þar og Haukum áður en hann fór í atvinnumennsku í Þýskalandi 2005. Hann lék í sex ár í Þýskalandi áður en hann fór til Póllands þar sem hann hefur orðið meistari bæði árin sín með Kielce. Þriðji titilinn í röð blasir nú við liðinu.
