Körfubolti

NBA í nótt | Durant og Westbrook í stuði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Russell Westbrook mátti vera ánægður með eigin frammistöðu í nótt.
Russell Westbrook mátti vera ánægður með eigin frammistöðu í nótt. Vísir/Getty
Þrír leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA deildarinnar í nótt, allt oddaleikir.

Kevin Durant og félagar í Oklahoma City Thunder unnu 11 stiga sigur, 120-109, á Memphis Grizzlies á heimavelli.

Durant var stigahæstur sinna manna með 33 stig, en hann tók auk þess átta fráköst. Russell Westbrook átti einnig frábæran leik og skilaði þrefaldri tvennu; 27 stigum, tíu fráköstum og 16 stoðsendingum.

Spánverjinn Marc Gasol skoraði mest fyrir Memphis, eða 24 stig. Mike Conley kom næstur með 20 stig, fimm fráköst og níu stoðsendingar.

Andstæðingar Oklahoma í undanúrslitum Vesturdeildarinnar verða Los Angeles Clippers sem lögðu Golden State Warriors í nótt, 126-121.

Blake Griffin skoraði 24 stig fyrir Clippers og gaf sex stoðsendingar. Chris Paul og Jamal Crawford skoruðu 22 stig hvor, en sá fyrrnefndi gaf einnig 14 stoðsendingar. Þá skoraði DeAndre Jordan 15 stig og reif niður 18 fráköst.

Stephen Curry var atkvæðamestur í liði Golden State, en hann skoraði 33 stig og gaf níu stoðsendingar. Draymond Green kom næstur með 24 stig og sjö fráköst.

Í Austurdeildinni sigraði Indiana Pacers Atlanta Hawks, 92-80, en þetta er í fyrsta sinn í sögu Indiana sem liðið kemur til baka eftir að hafa lent 3-2 undir í úrslitakeppni.

Paul George fór fyrir Indiana-liðinu, en hann skoraði 30 stig og tók 11 fráköst. Lance Stephensen var sömuleiðis sterkur með 19 stig, 14 fráköst og fimm stoðsendingar.

Kyle Korver var stigahæstur Atlanta-manna með 19 stig. Þá skoraði Paul Millsap 15 stig og tók 17 fráköst.

Indiana mætir Washington Wizards í undanúrslitum Austurdeildarinnar.

Úrslitin í nótt:

Oklahoma City Thunder 120-109 Memphis Grizzlies

Los Angeles Clippers 126-121 Golden State Warriors

Indiana Pacers 92-80 Atlanta Hawks 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×