Tinna Helgadóttir var sigursæl á Íslandsmótinu í badminton sem lauk í íþróttahúsinu í Strandgötu í dag.
Hún hóf daginn á því að vinna sigur í einliðaleik kvenna og varði þar með titil sinn í greininni. Hún varð svo meistari í tvíliðaleik ásamt Erlu Björgu Hafsteinsdóttur en þær höfðu betur í úrslitaleik gegn Íslandsmeisturum síðasta árs, Elínu Þóru Elíasdóttur og Rakel Jóhannesdóttur í tveimur lotum, 21-11 og 21-14.
Tinna keppti svo með Magnúsi Inga Helgasyni í tvenndarleik og höfðu þau betur gegn Atla Jóhannessyni og Snjólaugu Jóhannsdóttur í úrslitaleik, 21-17 og 21-15.
Tinna varð einnig þrefaldur Íslandsmeistari árið 2009 og er í hópi átján einstaklinga sem hafa unnið þetta afrek í næstum 70 ára sögu Íslandsmótsins.
Kári Garðarsson varð tvöfaldur Íslandsmeistari í dag en hann vann sigur í einliðaleik karla eftir að hafa unnið Atla í úrslitaleik. Þeir félagar urðu svo saman meistarar í tvíliðaleik.

