Allur ágóði WOW Cyclothon hjólreiðakeppninnar mun fara til styrktar tækjakaupa fyrir bæklunarskurðdeild Landspítalans. Markmiðið er að safna 10ö milljónum, því mikill skortur hefur verið á tækjum og þörf er á endurnýjun þeirra.
„Þessi deild hefur ekki fengið gjafir né styrkveitingar í langan tíma og ríkir því mikil gleði á meðal starfsmanna bæklunarskurðdeildar,“ segir í tilkynningu.
„Færanleg skyggnutæki eru nauðsynleg vinnutól í ýmsum sérgreinum,“ segir Björn Pétur Sigurðsson, sérfræðilæknir í bæklunaraðgerðum á höndum. Um er að ræða flókna hátæknivöru, en þróunin á henni hefur verið hröð undanfarin ár og sérhæfing hefur aukist.
Sjúkrahúsið fékk nýlega tæki til stórra aðgerða en vatnar tilfinnanlega tæki til að tryggja bestu niðurstöðuna hjá þeim sem brotna á höndum eða fótum.
„Slíkt tæki yrði sterkur burðarás fyrir sjúkrahúsið og myndi tvímælalaust stuðla að því, að áfram verði hægt að veita slösuðum meðferð í fremstu röð,“ segir Björn.
Hjólreiðakeppnin verður haldin í þriðja sinn dagana 24. – 27. júní. Hjólað verður með boðsveitaformi hringinn í kringum landið, um Hvalfjörð og yfir Öxi, samtals 1.332 kílómetra á innan við 72 klukkustundum.
Samkvæmt tilkynningu er áætlað að um 400 manns muni taka þátt.
Aðstandendur WOW Cyclothon vonast því eftir að sem flest lið skrái sig í keppnina og að allir landsmenn láti þetta málefni sig varða og taki þátt í áheitasöfnunni á vefsíðu keppninnar, www.wowcyclothon.is. Þar er einnig hægt að sjá frekari upplýsingar um keppnina.
Í ár verður sú nýjung á að einn flokkur verður einstaklingsflokkur þar sem einn hjólreiðamaður hjólar alla 1.332 kílómetrana einn síns liðs og hefur til þess 84 klukkustundir.
