Enski boltinn

Courtois búinn að semja við Real Madrid?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Thibaut Courtois er einn allra efnilegasti markvörður heims.
Thibaut Courtois er einn allra efnilegasti markvörður heims. vísir/getty
Thibaut Courtois, markvörður Atlético Madríd á Spáni, ætlar að bíða þar til samningur sinn við Chelsea rennur út sumarið 2016 og ganga þá til liðs við Real Madrid.

Þetta fullyrðir spænska útvarpsstöðin CadenaSer en hún segir að þessi 21 árs gamli Belgi sé búinn að samþykkja kaup og kjör hjá Real og verji mark liðsins tímabilið 2016/2017.

Courtois er samningsbundinn Chelsea en hefur verið á láni hjá Atlético síðan 2011. Hann er á sinni þriðju leiktíð með liðinu og er talinn einn allra efnilegasti markvörður heims.

Hann er í harðri samkeppni um byrjunarliðsstöðuna í belgíska landsliðinu en er þar á eftir SimonMignolet, markverði Liverpool.

Courtois, sem 48 sinnum hefur haldið markinu hreinu fyrir Atlético, er sagður þreyttur á að bíða eftir að Petr Cech gefi eftir sætið hjá Chelsea. Hann er ekki nema 31 árs og verið einn besti markvörður heims undanfarin ár þannig ólíklegt er að Courtois fái tækifæri í Lundúnum bráðlega.

Diego Lopez og Iker Casillas skipta markvarðarstöðunni bróðurlega á milli sín hjá Real Madrid þessa dagana. Lopez spilar í deildinni en Casillas í bikarnum og Meistaradeildinni.

Casillas, sem leikið hefur allan sinn feril með Real Madrid, ætlar ekki að yfirgefa félagið fyrr í fyrsta lagi 2017. Hann gæti nú mögulega þurft að sitja á bekknum síðustu leiktíðina hjá uppeldisfélaginu ef frétt Cadena reynist rétt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×