Innlent

Vindhviður fóru í fimmtíu metra á sekúndu á Stórhöfða

Gissur Sigurðsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Björgunarsveitarmenn á höfuðborgarsvæðinu þurftu að sinna að minnsta kosti fimm útköllum vegna foks í gærkvöldi en hvergi hlaust verulegt tjón af. Þeir voru víðar að störfum og þurftu meðal annars að hefta fok á Hvolsvelli og koma ökumanni flutningabíls til aðstoðar eftir að bíllinn rann þversum á Steingrímsfjarðarheiði.

Mesta tjónið varð, hinsvegar í Ásbrú á Keflavíkukrflugvelli þegar fjarskiptamastur fyrir GSM samband í Reykjanesbæ fauk um koll og gereyðilagðist.

Vindhviða mældist 50 metrar á sekúndu undir kvöld á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, sem er með því mesta sem mælst hefur hér á landi og ein hviða mældist 44 metrar á sekúndu á Kjalarnesi, en nú hefur vind lægt töluvert, þótt strekkingsvindur sé enn við Suðruströndina og verði á Suðausturlandi í dag.

Færð spilltist víða í gærkvöldi, eða allt frá Vestfjörðum og austur á firði en mokstur hófst víðast hvar undir morgun. Þá var slökkviliðið á Blönduósi kallað út í nótt þar sem sinueldur logaði í Langadal. Hann náði ekki útbreiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×