„Hungursneyð er nákvæmt og formlega skilgreint hugtak. Hungursneyð er ekki háð huglægu mati. Því er þessi fullyrðing Vigdísar einfaldlega röng,“ segir Sigríður í samtali við Vísi.
Sigríður segir að til þess að hungursneyð sé lýst yfir á ákveðnu landssvæði þurfi þrjú megin skilyrði að vera uppfyllt. „Þrjátíu prósent barna þurfa að þjást að bráðavannæringu, sem þýðir að börn séu lífshættulega vannærð. Í öðru lagi þurfa tuttugu prósent fólks að fá innan við 2100 hitaeiningar á dag og í þriðja lagi þurfa tveir fullorðnir eða fjögur börn á hverja þúsund íbúa að láta lífið af völdum matarskorts á einum sólarhring. Hungursneyð er grafalvarlegt ástand,“ útskýrir hún.
„Ef við heimfærum þetta yfir á Reykjavík, þá þyrftu tvö til fjögur hundruð manns að láta lífið af völdum matarskorts á einum sólarhring, til þess að hungursneyð væri lýst yfir,“ segir Sigríður ennfremur.
Hún segir mikinn mun vera á hungri og hungursneyð. „Það er fullt af fólki sem gengur hungrað til hvílu á hverju kvöldi og alltof mörg börn sem þjást af vannæringu. En það er langt frá því að vera sami hluturinn og hungursneyð. Á þessari stundu er ekkert svæði í heiminum þar sem hungursneyð hefur verið lýst yfir, sem betur fer.“
Ummæli Vigdísar vöktu mikla athygli á samskiptavefnum Twitter. Hér að neðan má sjá nokkur tíst um ummælin.
Sæl @vigdishauks, á pantað flug til DK í apríl. Þarf ég að hafa áhyggjur af þessari hungursneyð sem ríkir þar og í öðrum ESB ríkjum?
— Orri Freyr Rúnarsson (@OrriFreyr) February 23, 2014
Ég er að fara í brúðkaup í Belgíu í sumar. Ég þarf víst að smyrja mér nesti og svona, m.v. orð form. fjárlaganefndar #minskodun #hungursneyð
— Andrés Fjeldsted (@andresfjeld) February 23, 2014
'Malta er ekki ríki' og 'Það er hungursneyð í Evrópu'! Frasar í boði Formanns fjárlaganefndar. If that doesn't scare you...... #MinSkodun
— Sveinn Arnarsson (@Sveinn_A) February 23, 2014
Tek við matarsendingum til Þýskalands. Hér ríkir víst hungursneyð. #minskodun
— Ásdís Sigtryggsdótti (@Asdis_S) February 23, 2014