Körfubolti

Durant vill að gælunafn sitt sé Þjónninn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant.
Kevin Durant. Vísir/Getty
Kevin Durant hefur átt frábært tímabil með Oklahoma City Thunder liðinu í NBA-deildinni í körfubolta og er langstigahæsti leikmaður deildarinnar með 31,5 stig að meðaltali í leik.

Það hefur eitthvað verið í umræðunni vestan hafs að Durant væri ekki enn kominn með gælunafn þótt að kappinn væri á sínu sjötta ári í NBA-deildinni.

KD bætti úr því í viðtali við Bill Simmons á ESPN sem tekið var á Stjörnuhelgi NBA-deildarinnar.

Kevin Durant vill kalla sig "The Servant" eða "Þjóninn" á íslensku.

„Ég vil þjóna öllum, liðsfélögunum, starfsfólkinu og stuðningsmönnunum," sagði Kevin Durant þegar hann var beðinn um útskýringar á nýja gælunafninu sínu.

Durant vill alls ekki að hann sé kallaður "The Slim Reaper" eða "Granni maðurinn með ljáinn" en væri alveg sáttur við að vera bara kallaður KD.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×