Körfubolti

Jón Arnór og félagar úr leik | Klúður á skrifstofunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd / Daníel
CAI Zaragoza tapaði naumlega fyrir tyrkneska liðinu Besiktas, 79-77, í Evrópubikarnum í kvöld og komst af þeim sökum ekki áfram úr riðlakeppninni.

Besiktas tryggði sér sigur með troðslu á lokasekúndum leiksins en Tyrkirnir byrjuðu mun betur í leiknum og náði 21-9 forystu seint í fyrsta leikhluta.

Munurinn var þó aðeins fimm stig í hálfleik, 41-36, og skiptust liðin á forystunni í seinni hálfleik. Mikil spenna var á lokamínútum leiksins en Tyrkirnir höfðu að lokum betur.

Jón Arnór Stefánsson spilaði í tæpar 20 mínútur í leiknum fyrir Zaragoza og skoraði á þeim tíma sex stig auk þess sem hann gaf þrjár stoðsendingar og tók tvö fráköst. Hann stal boltanum einu sinni en tapaði honum tvívegis.

Hann sagði í samtali við vefsíðuna karfan.is eftir leikinn í kvöld að öllu jöfnu hefðu hans menn átt að vinna Besiktas. Leikurinn fór fram á Spáni en ekki á heimavelli liðsins í Zaragoza.

Ástæðan er sú að forráðamenn liðsins sendu vitlausar upplýsingar um leiktímann á umsjónarmenn keppninnar og var höllin, þar sem liðið spilar heimaleiki sína, bókuð fyrir tónleikahald í kvöld. Zaragoza þurfti því að spila í klukkutíma fjarlægð frá heimavelli liðsins.

„Þetta var þvílíkt klúður hjá þeim og án þess að nota það sem afsökun þá er ég handviss um að við hefðum tekið þá með 20 stigum á okkar parketi,“ sagði Jón Arnór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×