Handbolti

Frábær byrjun hjá Patreki og lærisveinum hans

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
mynd:nordicphotos/afp
Austurríki vann öruggan sigur á Tékklandi 30-20 í fyrsta leik A-riðils Evrópukeppninnar í handbolta í kvöld. Austurríki var 5 mörkum yfir í hálfleik 14-9 og var sigur liðsins aldrei í hættu í seinni hálfleik.

Patrekur Jóhannesson þjálfari Austurríkis getur verið mjög ánægður með lærisveina sína. Liðið lék agaðan sóknarleik og frábæran varnarleik. Liðið sýndi að það er ekkert slys að liðið hafi tryggt sér sæti á EM úr erfiðum riðli í undankeppninni.

Robert Weber var markahæstur hjá Austurríki með 7 mörk. Viktor Szilagyi og Roland Schlinger skoruðu 6 mörk hvor og Raul Santos 5.

Hjá Tékklandi var Filip Jicha markahæstur með 6 mörk. Pavel Horak skoraði 5 og Jan Sobol 4. Lið Tékklands virðist ekki eiga mikið erindi í þetta mót af þessum leik að dæma en oft hafa lið byrjað mót á erfiðum skell og bitið svo frá sér.

Austurríki og Tékkland eru með Makedóníu og Danmörku í riðli en þau mætast síðar í kvöld í síðasta leik dagsins á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×