Innlent

Snjóflóðahætta á Flateyrarvegi

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Mynd/Úr safni
Veðurfræðingur Vegagerðarinnar varar við hálku mjög víða um land bæði á fjallvegum og á láglendi, þar sem veðrið fer nú kólnandi.

Hætt hefur verið við mokstur í Ísafjarðardjúpi og á Steingrímsfjarðarheiði. Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að það verði skoðað í fyrramálið.

Þá segir einnig í tilkynningunni að þjóðvegur 1 sé auður á Suðurlandi en hálka og hálkublettir nokkuð víða á öðrum vegum. Þannig er flughált í Grafningi og í Landeyjum. Eins á Suðurstrandarvegi, Krýsuvíkurvegi og á Kjósaskarði.

Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir mjög víða. Ófært er á Fróðárheiði, þæfingur og óveður í Svínadal og óveður í Staðarsveit.

Á Vestfjörðum er þungfært og stórhríð í Súgandafirði, þæfingsfærð og skafrenningur er á Gemlufallsheiði og þæfingsfærð og stórhríð á Flateyrarvegi. Þar er fólk beðið að gæta varúðar vegna snjóflóðarhættu. Þungfært er frá Súðavík í Ögurnes.

Ófært og óveður er á Steingrímsfjarðarheiði og um Þröskulda. Hálka og skafrenningur er á Hálfdán en hálka á Mikladal og Kleifaheiði. Þæfingur er frá Brjánslæk í Skálmadal, ófært og stórhríð er á Klettshálsi. Þæfingur og óveður í Kollafirði og um Hjallháls og Ódrjúgsháls.

Á Norðurlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Óveður er á Skagastrandavegi og í Langadal. Snjóþekja og skafrenningur er á Þverárfjalli og flughálka út Blönduhlíð. Snjóþekja og skafrenningur er á Öxnadalsheiði. Þá er þoka á Hólaheiði, Hófaskarði og Hálsum.

Flughált er á Fljótsdalshéraði og eins á Vatnsskarði eystra en þar er einnig þoka. Snjóþekja og skafrenningur er á Biskupshálsi en hálka og éljaganur á Möðrudalsöræfum, þæfingur og snjókoma á Vopnafjarðarheiði. Hálka og þoka er á Fjarðarheiði og á Oddskarði en hálka á Fagradal og Jökuldal. Autt frá Fáskrúðsfirði með ströndinni suður um.

Þá varar Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vegfarendur við umferð hreindýra á Austur- og Suðausturlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×