Skynsamlegir kjarasamningar Ólafur Þ. Stephensen skrifar 27. desember 2013 07:00 Kjarasamningarnir sem náðust á almenna vinnumarkaðnum fyrir jólahátíðina eru skynsamleg lending í erfiðri stöðu. Mörgum þykir almenna launahækkunin, 2,8 prósent, ekki mikil. Hún er hins vegar til marks um að samtökin á vinnumarkaðnum hafa horfzt í augu við þá staðreynd að hjá fyrirtækjum í landinu almennt er ekki innistæða fyrir meiri hækkun. Menn hafa lært sína lexíu af síðustu kjarasamningum. Þeir kváðu á um óraunhæfar launahækkanir sem fyrirtækin veltu síðan út í verðlagið þannig að raunverulegur ávinningur fyrir launafólk varð lítill. Staðhæfingar um að lítið hafi verið gert fyrir þá lægst launuðu eru ekki réttar. Ákvæði um lágmarkskrónutöluhækkun þýða að lægstu launin hækka um fimm prósent og allir taxtar undir 230 þúsundum hækka sérstaklega. Nokkrir leiðtogar fámennra verkalýðsfélaga sem neituðu að skrifa undir kjarasamninginn hafa haldið því fram að samningarnir auki á misskiptingu. Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ hefur sýnt ágætlega fram á að hefði leið hárra prósentuhækkana, sem sumir sömu menn lögðu til, verið farin hefðu hæstu launin hækkað miklu meira en raunin varð. Það má heldur ekki gleyma því að launahækkunin sem slík er aðeins partur af pakkanum. Ríkið greiddi fyrir samningunum með því að hækka tekjumörkin í lægsta þrepi tekjuskattsins. Eftir stendur að milli- og hátekjufólk fær meiri skattalækkun. Þeir sem gagnrýna þá ráðstöfun eru líklega búnir að gleyma að á árunum eftir hrun tókst að verja kaupmátt lægst launaða fólksins. Milli- og hátekjuhóparnir tóku hins vegar á sig bæði launalækkanir og gríðarlegar skattahækkanir og þar af leiðandi miklu meiri kaupmáttarskerðingu. Ríkisstjórnin hefur skuldbundið sig til að halda gjaldskrárhækkunum sínum undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans næstu tvö árin og heitir sömuleiðis að endurskoða gjaldahækkanir í fjárlagafrumvarpinu. Við eigum því hugsanlega von á að hinar hefðbundnu hækkanir á áfengis- og tóbaksgjaldi og bifreiðagjöldum verði mildaðar eitthvað. Stærstu sveitarfélögin hafa sömuleiðis fallizt á að halda aftur af gjaldskrárhækkunum sínum. Samtök atvinnulífsins beina því til aðildarfyrirtækja sinna að hækka ekki verð umfram verðbólgumarkmiðið. Gangi þetta allt eftir, getur niðurstaðan orðið raunveruleg kaupmáttaraukning fyrir allan almenning í landinu, sem er miklu skynsamlegri og betri útkoma en að verðbólgan éti enn á ný launahækkanirnar. Þannig er líka byggt undir frekari kjarabætur í framtíðinni. Samtök opinberra starfsmanna segjast ekki munu sætta sig við sömu launahækkanir og í þessum samningum. Það er út af fyrir sig engin ástæða til að ljósrita bara samninga almenna markaðarins þegar samið verður við opinbera starfsmenn, en þó liggur algjörlega í augum uppi að heildarkostnaðaraukinn má ekki verða meiri. Fari svo, neyðast ríki og sveitarfélög einfaldlega til að velta kostnaðinum yfir á skattgreiðendur og þá er þjóðarsáttin ónýt. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Verði þitt val, svo á jörðu sem á himni Halldóra Lillý Jóhannsdóttir Skoðun Grípum tækifærin og sköpum bjartari framtíð Ísak Leon Júlíusson Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Halldór 9.11.2024 Halldór Frelsi til að búa þar sem þú vilt Sæunn Gísladóttir Skoðun Fólk eða fífl? Anna Gunndís Guðmundsdóttir Skoðun Öryggis annarra vegna… Ingunn Björnsdóttir Skoðun
Kjarasamningarnir sem náðust á almenna vinnumarkaðnum fyrir jólahátíðina eru skynsamleg lending í erfiðri stöðu. Mörgum þykir almenna launahækkunin, 2,8 prósent, ekki mikil. Hún er hins vegar til marks um að samtökin á vinnumarkaðnum hafa horfzt í augu við þá staðreynd að hjá fyrirtækjum í landinu almennt er ekki innistæða fyrir meiri hækkun. Menn hafa lært sína lexíu af síðustu kjarasamningum. Þeir kváðu á um óraunhæfar launahækkanir sem fyrirtækin veltu síðan út í verðlagið þannig að raunverulegur ávinningur fyrir launafólk varð lítill. Staðhæfingar um að lítið hafi verið gert fyrir þá lægst launuðu eru ekki réttar. Ákvæði um lágmarkskrónutöluhækkun þýða að lægstu launin hækka um fimm prósent og allir taxtar undir 230 þúsundum hækka sérstaklega. Nokkrir leiðtogar fámennra verkalýðsfélaga sem neituðu að skrifa undir kjarasamninginn hafa haldið því fram að samningarnir auki á misskiptingu. Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ hefur sýnt ágætlega fram á að hefði leið hárra prósentuhækkana, sem sumir sömu menn lögðu til, verið farin hefðu hæstu launin hækkað miklu meira en raunin varð. Það má heldur ekki gleyma því að launahækkunin sem slík er aðeins partur af pakkanum. Ríkið greiddi fyrir samningunum með því að hækka tekjumörkin í lægsta þrepi tekjuskattsins. Eftir stendur að milli- og hátekjufólk fær meiri skattalækkun. Þeir sem gagnrýna þá ráðstöfun eru líklega búnir að gleyma að á árunum eftir hrun tókst að verja kaupmátt lægst launaða fólksins. Milli- og hátekjuhóparnir tóku hins vegar á sig bæði launalækkanir og gríðarlegar skattahækkanir og þar af leiðandi miklu meiri kaupmáttarskerðingu. Ríkisstjórnin hefur skuldbundið sig til að halda gjaldskrárhækkunum sínum undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans næstu tvö árin og heitir sömuleiðis að endurskoða gjaldahækkanir í fjárlagafrumvarpinu. Við eigum því hugsanlega von á að hinar hefðbundnu hækkanir á áfengis- og tóbaksgjaldi og bifreiðagjöldum verði mildaðar eitthvað. Stærstu sveitarfélögin hafa sömuleiðis fallizt á að halda aftur af gjaldskrárhækkunum sínum. Samtök atvinnulífsins beina því til aðildarfyrirtækja sinna að hækka ekki verð umfram verðbólgumarkmiðið. Gangi þetta allt eftir, getur niðurstaðan orðið raunveruleg kaupmáttaraukning fyrir allan almenning í landinu, sem er miklu skynsamlegri og betri útkoma en að verðbólgan éti enn á ný launahækkanirnar. Þannig er líka byggt undir frekari kjarabætur í framtíðinni. Samtök opinberra starfsmanna segjast ekki munu sætta sig við sömu launahækkanir og í þessum samningum. Það er út af fyrir sig engin ástæða til að ljósrita bara samninga almenna markaðarins þegar samið verður við opinbera starfsmenn, en þó liggur algjörlega í augum uppi að heildarkostnaðaraukinn má ekki verða meiri. Fari svo, neyðast ríki og sveitarfélög einfaldlega til að velta kostnaðinum yfir á skattgreiðendur og þá er þjóðarsáttin ónýt.