Tónlist

Dúndurfréttir í fótspor Pink Floyd

Hljómsveitin Dúndurfréttir spilar plötuna Dark Side of the Moon í kvöld.
Hljómsveitin Dúndurfréttir spilar plötuna Dark Side of the Moon í kvöld. fréttablaðið/stefán
Hljómsveitin Dúndurfréttir spilar meistarastykkið Dark Side of the Moon eftir hljómsveitina Pink Floyd í Eldborgarsal Hörpu í kvöld.

Dúndurfréttamenn héldu tvenna tónleika í Hörpu í vor þar sem þeir spiluðu plötuna í heild sinni ásamt öðrum perlum Pink Floyd og seldist upp á þá báða. Einnig spiluðu þeir í Hofi á Akureyri. Samanlagt hafa um 3.400 manns sótt tónleikana hér á landi.

Fjörutíu ár eru liðin síðan Dark Side of the Moon kom út og hefur platan selst í yfir fimmtíu milljónum eintaka. Platan á heimsmetið yfir veru á bandaríska Billboard-vinsældalistanum þar sem hún dvaldi í samfleytt 741 viku eða meira en fjórtán ár.

Í rólegri viku seljast á milli átta til níu þúsund eintök af plötunni á viku, bara í Bandaríkjunum.

Enn eru til miðar á tónleikana í kvöld og fást þeir á Midi.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×