Körfubolti

Tekst Helenu að slá stigamet Önnu Maríu í dag?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það fór vel á með Önnu Maríu og Helenu eftir sigurinn á Kýpur í gær.
Það fór vel á með Önnu Maríu og Helenu eftir sigurinn á Kýpur í gær. Mynd/KKÍ

Helena Sverrisdóttir skoraði 16 stig í öruggum sigri Íslands á Kýpur á Smáþjóðaleikunum í gær. Helenu vantar nú aðeins eitt stig til þess að jafna stigamet Önnu Maríu Sveinsdóttur með landsliðinu. Ísland mætir Lúxemborg í leiknum um gullið á leikunum í dag.

„Þetta er ekkert flókið. Hún spilar ekki á morgun,“ segir Anna María, sem er aðstoðarþjálfari landsliðsins.

„Ég er mjög ánægð að heyra þetta. Það er alltaf gaman þegar fólk nær metunum mínum,“ segir Anna María. Hún minnir á að Helena sé komin mun lengra í körfuboltanum en hún náði og er greinilega mjög ánægð fyrir hennar hönd.

Spiluðu aldrei saman
Anna María Sveinsdóttir fagnar tíunda Íslandsmeistaratitli sínum með Keflavík vorið 2003.Mynd/Einar Ólason

Síðasta stig Önnu Maríu kom í sigurleik á Lúxemborg í Andorra 31. júlí 2004 (landsleik númer 94) en fyrsta stig Helenu kom í sigurleik á Noregi 11. ágúst 2004 (landsleik númer 95). Þær náðu því aldrei að spila saman.

Helena spilaði sína fyrstu þrjá landsleiki í lok desember 2002 en Anna María var ekki með þá. Helena skoraði ekki leikjunum sínum 2002.

Anna María var "bara" búin að skora 298 stig og spila 28 leiki þegar hún var á sama aldri og Helena er núna. 61 prósent stiga hennar með landsliðinu komu því seinna á ferlinum.

Anna María hefur nú misst bæði stigametin sín á stuttum tíma því Birna Valgarsdóttir bætti stigamet hennar í efstu deild í lokaumferð Iceland Express deildar kvenna.

Hér að neðan má sjá samanburð á körfuknattleikskonunum tveimur auk upplýsinga um stigahæstu landsliðskonur Íslands frá upphafi.

Samanburður á Önnu Maríu og Helenu Sverris
Helena Sverrisdóttir í landsleik með Íslandsi.

Anna María Sveinsdóttir

Landsleikir - 60

Ár: 1986-2004

Stig - 759

Stig í leik  - 12,7

30 stiga leikir - 2

20 stiga leikir - 8

10 stiga leikir - 41

Flest stig í einum leik: 35 stig á móti Möltu 27. júní 1996

Hæsta meðalskor á einu ári: 20,6 stig í leik 1996 (5 leikir, 103 stig)

Flest stig á móti einni þjóð: 162 stig á móti Kýpur (16,2 stig í leik)

Helena Sverrisdóttir

Landsleikir - 44

Ár: 2002 -

Stig - 758

Stig í leik - 17,2

30 stiga leikir - 2

20 stiga leikir - 16

10 stiga leikir - 38

Flest stig í einum leik: 34 stig á móti Svartfjallalandi 10. september 2008

Hæsta meðalskor á einu ári:  22,0 stig í leik 2013 (2 leikir, 44 stig)

Flest stig á móti einni þjóð: 96 stig á móti Englandi (16,0 stig í leik)

Flest stig fyrir A-landslið kvenna í körfubolta (meðaltal per leik)
Birna Valgarðsdóttir er þriðji stigahæsti landsliðsmaður Íslands.

1. Anna María Sveinsdóttir    759 (12,7 stig í leik)

2. Helena Sverrisdóttir    758 (17,2)

3. Birna Valgarðsdóttir    730 (9,6)

4. Signý Hermannsdóttir    509 (8,3)

5. Hildur Sigurðardóttir    391 (5,4)

6. Erla Þorsteinsdóttir    377 (7,9)

7. Guðbjörg Norðfjörð    376 (7,1)

8. Linda Stefánsdóttir    293 (7,5)

9. Helga Þorvaldsdóttir    287 (5,4)

10. Alda Leif Jónsdóttir    284 (5,5)

11. Björg Hafsteinsdóttir    270 (8,2)

12. Erla Reynisdóttir    265 (7,8)

13. Kristín Blöndal    247 (5,5)

14. Anna Dís Sveinbjörnsdóttir    225 (7,5)

15. Hanna B. Kjartansdóttir    179 (4,6)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×