Skoðun

Orðsending til borgarstjórnar

Auður Guðjónsdóttir skrifar
Borgarstjórn til upprifjunar birti ég hér hluta fyrstu greinar reglugerðar um ferðaþjónustu fatlaðs fólks í Reykjavík: Ferðaþjónusta fatlaðs fólks er ætluð til afnota fyrir þá íbúa Reykjavíkur sem uppfylla eitt eða fleiri eftirfarandi skilyrða: a) Hjólastólanotendur b) Blindir og geta eigi notað önnur farartæki c) Ófærir um að nota almenningsvagnaþjónustu vegna annarra langvarandi fötlunar og hafa ekki aðgang að eigin farartæki.

Þeir sem hafa fengið styrk til bifreiðakaupa frá Tryggingastofnun ríkisins og þeir sem njóta bensínstyrks skulu alla jafna ekki njóta réttar til ferðaþjónustu samkvæmt reglum þessum. Fötluðum stillt upp við vegg Það vekur furðu mína að samkvæmt lögum og reglugerðum skuli fatlað fólk í Reykjavík ekki hafa jafnan aðgang og ófatlað að almannasamgöngum. Þrátt fyrir að úrræðið sé til staðar, þ.e. ferðaþjónusta fatlaðra, er fötluðu fólki meinaður aðgangur að þjónustunni samkvæmt ofangreindum reglum ef það nýtur tólf þúsund króna bensínstyrks á mánuði og styrks til bifreiðakaupa á einhverra ára fresti. Undantekningar eru gerðar tímabundið ef fólk getur sannað með læknisvottorði og öðrum rökstuðningi að það þurfi nauðsynlega á þjónustunni að halda. Margt ófatlað fólk nýtir Strætó í fastar ferðir, s.s. í og úr vinnu eða í skóla, en notar einkabifreið sína í öðrum erindagjörðum. Slíkt val hefur fatlað fólk ekki. Annaðhvort þiggur það bensínstyrkinn og fær ekki aðgang að ferðaþjónustunni nema í undantekningartilfellum eða afþakkar styrkinn og fær þá úthlutað vissum ferðum í mánuði.

Að takmarka svo alvarlega aðgang fatlaðs fólks að sambærilegri opinberri þjónustu og ófatlaðir hafa óheftan aðgang að er óboðlegt og samrýmist ekki hugmyndum okkar Íslendinga um jafnrétti. Ég fer því vinsamlegast fram á það við borgarstjórn að hún nemi málsgreinina sem vitnað er í hér að ofan á brott úr reglugerð um ferðaþjónustu fatlaðra.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×