Körfuknattleikskonan Helena Sverrisdóttir varð þess heiðurs aðnjótandi að gegna hlutverki fánabera þegar Smáþjóðaleikarnir voru settir í 15. skipti á Josy Barthel-leikvanginum í Lúxemborg í kvöld.
„Það var rosalega gaman að fá að leiða hópinn út á völlinn og stemningin var mjög góð,“ segir Helena sem spilar sem atvinnumaður með Good Angels í Slóvakíu. „Maður er vanur því að sundkappar eða frjálsíþróttafólk sjái um þetta. Ég bjóst ekki við því að einhver úr körfuboltanum yrði valinn,“ segir Helena.

Aðspurð hvort stöngin hafi ekki verið níðþung segist hún vera aum í öxlunum. Hún hlær þó og segist lítið hafa pælt í því á meðan á athöfninni stóð. Helena og félagar mæta Möltu í fyrsta leik á miðvikudag.
„Keppnishöllin er risastór og við erum spenntar að fá að spila þar. Við eigum ekki leik fyrr en á miðvikudag en ætlum að styðja strákana gegn San Marínó á morgun.“