Formennirnir í lífi mínu Svavar Hávarðsson skrifar 1. maí 2013 09:45 Nú er svo komið að í hvert sinn sem ég fer úr fötunum verður mér hugsað til Jóhönnu Sigurðardóttur, fráfarandi forsætisráðherra. Ég get útskýrt. Hvernig nekt mín tengist þessum ástsæla formanni jafnaðarmanna á rætur sínar að rekja til ölæðis í þýskri hafnarborg árið 1984. Þá taldi ég mig vera togarajaxl. Í þeim anda ráfaði ég inn á einhverja ömurlegustu drykkjarholu í gjörvallri Brimarhöfn og heimtaði romm – og húðflúr sem var þar einnig í boði. Á þessari húðflúrstofu andskotans slengdi ég horuðum handleggnum yfir barborðið og treysti einhverjum manngarmi fyrir því að breyta ásýnd minni til eilífðarnóns. Eftirtekjan? Frekar illa teiknuð rauð rós á löngum stilk – ekki ósvipuð þeim sem Jóhanna fékk í fangið fyrir framan Stjórnarráðið á dögunum. Mamma hafði varað mig við því að láta flúra mig. Sagði að sú stund rynni upp að ég liti á öxlina á mér og spyrði í forundran hvern andskotann ég hefði verið að pæla. En áður en ég viðurkenni að hún hafi haft rétt fyrir sér segi ég þetta. Ég er þeirrar skoðunar að við séum allt of upptekin af því að flokka gjörðir okkar í fortíðinni með neikvæðum formerkjum. Ef maður meiðir engan má gera ráð fyrir því að þessi litlu atvik séu oftar en ekki til góðs – og því algjör óþarfi að láta þau rífa sig niður. Ég sé til dæmis ekki eftir því að hafa sent Páli Björnssyni, formanni Sagnfræðingafélags Íslands, erótískan tölvupóst sumarið sem ég var að stíga í vænginn við konuna mína. Páll svaraði mér um hæl – sagðist vera upp með sér en gera ráð fyrir því að sendingin hefði verið ætluð öðrum. Sporin inn á næsta stjórnarfund félagsins voru vissulega þung en þetta hafði engin teljandi áhrif á samskipti okkar til lengri tíma litið. Ég lærði mína lexíu – og þannig á maður að moða úr hverri lífsreynslu. Síðan þetta var vanda ég mig til dæmis alltaf sérstaklega þegar ég sendi tölvupóst. Því var það í textaskilaboðum í gegnum síma sem ég bað á dögunum Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, að henda fyrir mig þremur kartöflum í pott áður en ég kæmi heim úr vinnu. Rétt eins og Páll tók hann erindi mínu með jafnaðargeði. Ef Guð lofar bíður mín hins vegar langt líf með Jóhönnu og rósinni. Mikið er ég samt feginn að vera jafnaðarmaður – svona eftir á séð. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Svavar Hávarðsson Mest lesið Það er ekki eitt, það er allt Diljá Matthíasardóttir Skoðun Hvað segir Morgunblaðið nú um stöðu litlu ríkjanna í ESB? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óáreiðanlegar mælingar og misvísandi fréttir Sigurjón Arnórsson Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Líknarslæving við lífslok er umdeild meðferð Ingrid Kuhlman Skoðun Unga fólkið okkar og samfélagsmiðlar Fjóla Einarsdóttir Skoðun Hlutverk markmiða er að umbreyta okkur Árni Sigurðsson Skoðun Skilyrt loforð Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Henta vísindin bara þegar þau styðja skoðanir okkar? Haukur Logi Jóhannsson Skoðun Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun
Nú er svo komið að í hvert sinn sem ég fer úr fötunum verður mér hugsað til Jóhönnu Sigurðardóttur, fráfarandi forsætisráðherra. Ég get útskýrt. Hvernig nekt mín tengist þessum ástsæla formanni jafnaðarmanna á rætur sínar að rekja til ölæðis í þýskri hafnarborg árið 1984. Þá taldi ég mig vera togarajaxl. Í þeim anda ráfaði ég inn á einhverja ömurlegustu drykkjarholu í gjörvallri Brimarhöfn og heimtaði romm – og húðflúr sem var þar einnig í boði. Á þessari húðflúrstofu andskotans slengdi ég horuðum handleggnum yfir barborðið og treysti einhverjum manngarmi fyrir því að breyta ásýnd minni til eilífðarnóns. Eftirtekjan? Frekar illa teiknuð rauð rós á löngum stilk – ekki ósvipuð þeim sem Jóhanna fékk í fangið fyrir framan Stjórnarráðið á dögunum. Mamma hafði varað mig við því að láta flúra mig. Sagði að sú stund rynni upp að ég liti á öxlina á mér og spyrði í forundran hvern andskotann ég hefði verið að pæla. En áður en ég viðurkenni að hún hafi haft rétt fyrir sér segi ég þetta. Ég er þeirrar skoðunar að við séum allt of upptekin af því að flokka gjörðir okkar í fortíðinni með neikvæðum formerkjum. Ef maður meiðir engan má gera ráð fyrir því að þessi litlu atvik séu oftar en ekki til góðs – og því algjör óþarfi að láta þau rífa sig niður. Ég sé til dæmis ekki eftir því að hafa sent Páli Björnssyni, formanni Sagnfræðingafélags Íslands, erótískan tölvupóst sumarið sem ég var að stíga í vænginn við konuna mína. Páll svaraði mér um hæl – sagðist vera upp með sér en gera ráð fyrir því að sendingin hefði verið ætluð öðrum. Sporin inn á næsta stjórnarfund félagsins voru vissulega þung en þetta hafði engin teljandi áhrif á samskipti okkar til lengri tíma litið. Ég lærði mína lexíu – og þannig á maður að moða úr hverri lífsreynslu. Síðan þetta var vanda ég mig til dæmis alltaf sérstaklega þegar ég sendi tölvupóst. Því var það í textaskilaboðum í gegnum síma sem ég bað á dögunum Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, að henda fyrir mig þremur kartöflum í pott áður en ég kæmi heim úr vinnu. Rétt eins og Páll tók hann erindi mínu með jafnaðargeði. Ef Guð lofar bíður mín hins vegar langt líf með Jóhönnu og rósinni. Mikið er ég samt feginn að vera jafnaðarmaður – svona eftir á séð.
Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun
Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun