Körfubolti

Eini þjálfarinn sem þekkir það að tapa fyrir liði sjö eða átta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benedikt Guðmundsson.
Benedikt Guðmundsson. Mynd/Vilhelm
KR-ingar urðu á sunnudagskvöldið fyrstir til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta eftir tvo sigra á Þór úr Þorlákshöfn. KR-ingar urðu þar með annað liðið í sögu úrslitakeppninnar (frá því að núverandi kerfi var tekið upp 1997) sem kemur inn í úrslitakeppnina í sæti númer sjö og fer áfram í undanúrslitin.

Það hafði bara gerst áður árið 2008 þegar ÍR sló út þáverandi Íslandsmeistara KR eftir sigur í oddaleik í DHL-höll þeirra KR-inga. Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, þjálfaði einmitt líka KR-liðið sem datt úr fyrir fimm árum og hann þjálfaði enn fremur eina liðið sem hefur dottið út fyrir liði númer átta (Grindavík 1998). Benedikt er eini þjálfarinn sem þekkir það að tapa fyrir liði sjö eða átta.

ÍR-ingar voru nálægt því að fara alla leið 2008, því þeir unnu tvo fyrstu leikina í undanúrslitunum á móti Keflavík. Keflvíkingar náðu hins vegar að koma til baka með því að vinna þrjá leiki í röð. KR getur hins vegar orðið fyrsta liðið úr 7. eða 8. sæti sem tekst að komast alla leið í úrslitaeinvígið gangi hlutirnir áfram vel hjá Vesturbæingum í undanúrslitunum sem hefjast í næstu viku. Skagamenn (eina liðið í 8. sæti sem hefur komist áfram) duttu út fyrir KR í undanúrslitum 1998.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×