Gefins en dæmalaust dýrmætt Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir skrifar 14. febrúar 2013 06:00 Langflestir kennarar læra til starfans vegna þess að þeir hafa áhuga á námsefninu sem þeir ætla að kenna, hafa áhuga á börnum og þroska þeirra eða vilja leggja sitt af mörkum við að móta framtíðina. Ólíklegt er að margir sæki í kennarastarfið vegna launa þó að kjörin hafi hægt mjakast í rétta átt. Þrátt fyrir háleitar hugsjónir kennara er margt sem bendir til að börn í íslenskum grunnskólum beri of litla virðingu fyrir kennurum sínum.Virðing er forsenda árangurs Reglulega er vísað til framúrskarandi árangurs Finna í grunnskólakerfinu. Finnar eru ítrekað efstir í PISA-könnun OECD sem mælir árangur grunnskólanemenda. Íslenskir grunnskólanemar eru í sömu könnun í meðaltali OECD-landanna. Finnar hafa í kjölfarið á sínum frábæra árangri boðið upp á ráðstefnur og námskeið til að kynna hefðir sínar, kennsluaðferðir og ólíkar skólagerðir. Það er vissulega margt sem getur útskýrt árangur Finna. Eins og gengur eru sumar af áherslum þeirra sambærilegar okkar áherslum í skólamálum en annað í íslenskum skólum er betra en í Finnlandi, til dæmis þættir er varða mælingar á líðan barna í skólum. Að mati Finna sjálfra er þó lykilþáttur í árangri þeirra hversu mikil og almenn virðing ríkir fyrir kennarastarfinu, en virðing fyrir finnskum kennurum hefur lengi verið mjög mikil. Ólíkt því sem gerist hér á landi er finnskum kennurum nær alfarið treyst fyrir því að velja námsefni, kennsluhætti og hvenær námsefni er kennt þar sem aðalnámskrá Finna er mjög opin og sveigjanleg. Mikið traust og virðing samfélagsins fyrir kennurum er ekki síður tilkomin vegna jákvæðs viðhorfs Finna til menntamála en stefnumótandi ákvarðana skólayfirvalda.Virðing í verki Eitt af því mikilvægasta sem foreldrar kenna börnum sínum er að bera virðingu fyrir lífinu, fólki og hlutum. Besta leiðin til að kenna börnum að bera virðingu fyrir fólki er að umgangast börnin sjálf og aðra með virðingu. Þegar barn upplifir að því sé sýnd virðing veit það af reynslu hvernig það er gert. Virðing verður enda best kennd með framkomu og dæmum. Kennarinn minn í grunnskóla kenndi okkur virðingu með því að beina athygli okkar að ýmsum atvikum í skólastofunni. Þegar við átti bað hún um þögn og greip tækifærið til að útskýra hegðun sem tengdist virðingu. Með þessu ýtti hún undir tillitssemi við náungann. Ef pennaveski féll á gólfið og einhver hjálpaði eigandanum sagði hún okkur að þarna væri sýnd tillitssemi. Kennarar hafa sannarlega nóg af tækifærum til að benda á dæmi sem kenna börnum að bera virðingu fyrir félögunum, skólanum og umhverfinu.„Þessir kennarar…" Grunnurinn að því að börn beri virðingu fyrir skólanum sínum verður þó best lagður heima fyrir. Nú liggur ekkert fræðilegt mat fyrir á því hvort foreldrar skólabarna tala vel eða illa um kennara og annað starfsfólk skólanna heima við. Einhverjir foreldrar hafa eflaust staðið sig að því að tala óvarlega fyrir framan börnin sín. Sumir hafa kannski pirrast yfir ákveðnum kennurum eða sýnt óþarflega mikla ákefð þegar umræður um launamál kennara ber á góma. Það er að sama skapi tilfinning margra kennara að neikvæð umræða á heimilinu um árangur skóla, störf og kjaramál kennara sé staðreynd. Slíkt virðingarleysi væri sannarlega meinsemd enda taka börnin mikið mark á því hvað foreldrum þeirra finnst. Foreldrar og forráðamenn ynnu þannig gegn því að börnin okkar lærðu að meta mikilvægi menntunar og með því væri beinlínis verið að draga úr árangri barna okkar. Neikvæð umræða um skólastarf heima við getur gefið börnum tilfinningu fyrir því að skóli sé að einhverju leyti tímasóun og dregur jafnframt úr mikilvægu samstarfi heimilis og skóla. Miklu fremur ætti að halda þeirri skoðun á lofti að „menntun sé lykillinn að framtíðinni".Við matarborðið heima Börnin okkar munu aldrei virða skólann sinn, námið né kennarana sína nema þessum sömu hlutum sé sýnd virðing heima fyrir. Virðingin kemur þegar samtal fjölskyldunnar við matarborðið heima, um alla þá sem leggja sitt af mörkum til náms barnsins, breytist til hins betra. Ræðum um það sem vel er gert og setjum okkur í spor kennarans. Ræðum líka dæmi um virðingarleysi við börnin okkar þegar tækifæri gefast. Gerumst fyrirmyndir og sýnum virðingu í verki. Það er gefins en dæmalaust dýrmætt. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir Mest lesið RÚV og litla vandamálið Ásgeir Sigurðsson Skoðun ESB aðild eða fylki í USA, eða bara gamla Ísland og blessuð krónan? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Það tapa allir á orkuskortinum Guðríður Eldey Arnardóttir Skoðun Undirgefni, trúleysi og tómarúm Einar Baldvin Árnason Skoðun Reistu hamingjunni heimili Árni Sigurðsson Skoðun Takk Björgvin Njáll, eða þannig Ólafur Þór Ólafsson Skoðun Sertral eða sálfræðimeðferð Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Aðför að réttindum verkafólks Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun
Langflestir kennarar læra til starfans vegna þess að þeir hafa áhuga á námsefninu sem þeir ætla að kenna, hafa áhuga á börnum og þroska þeirra eða vilja leggja sitt af mörkum við að móta framtíðina. Ólíklegt er að margir sæki í kennarastarfið vegna launa þó að kjörin hafi hægt mjakast í rétta átt. Þrátt fyrir háleitar hugsjónir kennara er margt sem bendir til að börn í íslenskum grunnskólum beri of litla virðingu fyrir kennurum sínum.Virðing er forsenda árangurs Reglulega er vísað til framúrskarandi árangurs Finna í grunnskólakerfinu. Finnar eru ítrekað efstir í PISA-könnun OECD sem mælir árangur grunnskólanemenda. Íslenskir grunnskólanemar eru í sömu könnun í meðaltali OECD-landanna. Finnar hafa í kjölfarið á sínum frábæra árangri boðið upp á ráðstefnur og námskeið til að kynna hefðir sínar, kennsluaðferðir og ólíkar skólagerðir. Það er vissulega margt sem getur útskýrt árangur Finna. Eins og gengur eru sumar af áherslum þeirra sambærilegar okkar áherslum í skólamálum en annað í íslenskum skólum er betra en í Finnlandi, til dæmis þættir er varða mælingar á líðan barna í skólum. Að mati Finna sjálfra er þó lykilþáttur í árangri þeirra hversu mikil og almenn virðing ríkir fyrir kennarastarfinu, en virðing fyrir finnskum kennurum hefur lengi verið mjög mikil. Ólíkt því sem gerist hér á landi er finnskum kennurum nær alfarið treyst fyrir því að velja námsefni, kennsluhætti og hvenær námsefni er kennt þar sem aðalnámskrá Finna er mjög opin og sveigjanleg. Mikið traust og virðing samfélagsins fyrir kennurum er ekki síður tilkomin vegna jákvæðs viðhorfs Finna til menntamála en stefnumótandi ákvarðana skólayfirvalda.Virðing í verki Eitt af því mikilvægasta sem foreldrar kenna börnum sínum er að bera virðingu fyrir lífinu, fólki og hlutum. Besta leiðin til að kenna börnum að bera virðingu fyrir fólki er að umgangast börnin sjálf og aðra með virðingu. Þegar barn upplifir að því sé sýnd virðing veit það af reynslu hvernig það er gert. Virðing verður enda best kennd með framkomu og dæmum. Kennarinn minn í grunnskóla kenndi okkur virðingu með því að beina athygli okkar að ýmsum atvikum í skólastofunni. Þegar við átti bað hún um þögn og greip tækifærið til að útskýra hegðun sem tengdist virðingu. Með þessu ýtti hún undir tillitssemi við náungann. Ef pennaveski féll á gólfið og einhver hjálpaði eigandanum sagði hún okkur að þarna væri sýnd tillitssemi. Kennarar hafa sannarlega nóg af tækifærum til að benda á dæmi sem kenna börnum að bera virðingu fyrir félögunum, skólanum og umhverfinu.„Þessir kennarar…" Grunnurinn að því að börn beri virðingu fyrir skólanum sínum verður þó best lagður heima fyrir. Nú liggur ekkert fræðilegt mat fyrir á því hvort foreldrar skólabarna tala vel eða illa um kennara og annað starfsfólk skólanna heima við. Einhverjir foreldrar hafa eflaust staðið sig að því að tala óvarlega fyrir framan börnin sín. Sumir hafa kannski pirrast yfir ákveðnum kennurum eða sýnt óþarflega mikla ákefð þegar umræður um launamál kennara ber á góma. Það er að sama skapi tilfinning margra kennara að neikvæð umræða á heimilinu um árangur skóla, störf og kjaramál kennara sé staðreynd. Slíkt virðingarleysi væri sannarlega meinsemd enda taka börnin mikið mark á því hvað foreldrum þeirra finnst. Foreldrar og forráðamenn ynnu þannig gegn því að börnin okkar lærðu að meta mikilvægi menntunar og með því væri beinlínis verið að draga úr árangri barna okkar. Neikvæð umræða um skólastarf heima við getur gefið börnum tilfinningu fyrir því að skóli sé að einhverju leyti tímasóun og dregur jafnframt úr mikilvægu samstarfi heimilis og skóla. Miklu fremur ætti að halda þeirri skoðun á lofti að „menntun sé lykillinn að framtíðinni".Við matarborðið heima Börnin okkar munu aldrei virða skólann sinn, námið né kennarana sína nema þessum sömu hlutum sé sýnd virðing heima fyrir. Virðingin kemur þegar samtal fjölskyldunnar við matarborðið heima, um alla þá sem leggja sitt af mörkum til náms barnsins, breytist til hins betra. Ræðum um það sem vel er gert og setjum okkur í spor kennarans. Ræðum líka dæmi um virðingarleysi við börnin okkar þegar tækifæri gefast. Gerumst fyrirmyndir og sýnum virðingu í verki. Það er gefins en dæmalaust dýrmætt.