Skoðun

Tækjabúnaður í heilbrigðisþjónustu

Um allt land er rekin öflug heilbrigðisþjónusta fyrir landsmenn. Hún væri ekkert án þess þróttmikla starfsfólks sem hefur á undangengnum misserum sýnt fagmennsku og æðruleysi við erfiðar aðstæður í kjölfar efnahagshrunsins. Margt hefur komið upp sem sýnir okkur að á ýmsum sviðum vorum við síður undirbúin fyrir áfallið en hefði mátt ætla. Meðfylgjandi línurit, sem sýnir fjárframlög til tækjakaupa á Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri, staðfestir orð starfsfólks heilbrigðisþjónustunnar um að góðærið skilaði sér að litlu sem engu leyti til hennar. Stjórnendur og starfsfólk hafa ítrekað bent á að fjárframlög síðustu ára hafa ekki náð að viðhalda nauðsynlegri endurnýjun, jafnvel svo að í óefni horfir nú á sumum sviðum. Hrun gjaldmiðilsins með tilheyrandi hækkun á aðföngum gerir vandann enn meiri.

Lögum samkvæmt eru tvö sérgreinasjúkrahús á Íslandi, Landspítalinn í Reykjavík og Sjúkrahúsið á Akureyri. Á þessum stofnunum fer fram flókin og sérhæfð meðferð sem kallar á sérstaka þörf fyrir sérhæfðan búnað og tæki og er fjárþörf eftir því. Þessar heilbrigðisstofnanir, sem og margar aðrar um land allt, hafa um áratuga skeið notið velvilja félagasamtaka og einstaklinga sem af rausnarskap hafa stutt dyggilega við starfsemi stofnana. Engu að síður er framlag skattgreiðanda í formi ríkisframlags mikilvægast þessum stofnunum, enda ekki unnt að treysta einungis á almannaheillasamtök, þótt öflug séu.

Í ljósi þessa hefur nú í fyrsta sinn verið unnin, að beiðni velferðarráðuneytisins, fjárfestingaráætlun í tækjabúnaði fyrir Landspítalann. Í nýrri heilbrigðisáætlun er síðan gert ráð fyrir að annað hvert ár liggi fyrir áætlun um endurnýjun og kaup á tækjabúnaði á sérgreinasjúkrahúsum og horfa ber til sama fyrirkomulags á öðrum heilbrigðisstofnunum. Sem upptakt að breyttu og bættu fyrirkomulagi á þessu sviði ákvað ríkisstjórnin að auka framlög til tækjakaupa á sérgreinasjúkrahúsum umtalsvert, eins og sjá má á meðfylgjandi riti.




Skoðun

Sjá meira


×