Halldór Helgason var langt frá því að komast í sextán manna úrslit í FIS-snjóbrettamóti í Colorado í Bandaríkjunum í kvöld en hann keppti þá í slopestyle eða brekkuþraut.
Halldór endaði aðeins í fjórtánda sæti í sínum riðli og var langt frá því að komast í úrslit. Halldór varð níundi eftir fyrri ferðina þegar hann krækti í 40,66 stig frá þremur dómurum. Þeir gáfu honum hinsvegar aðeins 21,66 stig fyrir seinni ferðina sem var aðeins 19. besti árangurinn.
Fjórir efstu komust áfram í sextán manna úrslit en sá fjórði og síðasta komst áfram á 75,66 stigum. Það var Finninn Niemelae Nuutti sem slapp með það að fá aðeins 12,00 stig fyrir seinni ferðina en frábær fyrri ferð skilaði honum áfram í úrslit.
Hinir sem komust upp úr riðlinum voru Ástralinn James Scotty, Norðmaðurinn Ulsletten Emil Andre og Bandaríkjamaðurinn Davis Brandon.
Halldór er að reyna að verða fyrsti íslenski brettamaðurinn sem keppir á vetrarólympíuleikum og þetta var annað að tveimur mótum sem hann hefur tækifæri til að vinna sér inn þátttökurétt á ÓL.
Halldór fær núna bara eitt tækifæri til viðbótar til að komast inn en hann keppir á móti í Kanada 16. janúar næstkomandi.
Halldór er að reyna að safna nógu mörgum FIS-stigum til þess að vera meðal þeirra 40 efstu á FIS-styrkleikalistanum í janúar þegar það ræðst hverjir fá að keppa á Vetrarólympíuleikunum í Sochi í Rússlandi.
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2017-09-07T144452.760Z-haukar.png)
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2025-02-14T125946.545Z-2021-10-15T150140.503Z-Jeruzalem_Ormoz.png)