Körfubolti

Óvenjuleg flautukarfa í spænska körfuboltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Felipe Reyes.
Felipe Reyes. Mynd/NordicPhotos/Getty
Felipe Reyes, fyrirliði Real Madrid í spænska körfuboltanum, skoraði magnaða þriggja stiga körfu í stórsigri á La Bruixa d'Or í dag. Felipe Reyes tók bara eitt þriggja stiga skot í leiknum og það var af ótrúlegri gerðinni.

Felipe Reyes fékk þá boltann út við hliðarlínu í lok fyrri hálfleiksins. Leiktíminn var að renna út og hann hafði aðeins tíma til þess að kasta boltanum aftur fyrir sig. Það var ekki að spyrja að því nema að boltinn fór rétta leið í körfuna.

Dómarar leiksins tóku sér tíma í að skoða myndbandsupptökur af skotinu en dæmdu körfuna síðan gilda. Það skipti reyndar ekki öllu máli fyrir úrslit leiksins enda var Real Madrid þá 54-28 yfir í hálfleik.

Real Madrid vann leikinn á endanum 111-63 og Felipe Reyes lét sér nægja að skora fimm stig á tæpum fimmtán mínútum. Nikola Mirotić var stigahæstur með 28 stig.

Það er hægt að sjá þessa mögnuðu flautukörfu Felipe Reyes hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×