Fótbolti

Arsene Wenger fékk tap á Emirates í afmælisgjöf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/NordicPhotos/Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hélt upp á 64. afmælið sitt í dag en fékk engin stig í afmælisgjöf þegar Arsenal-liðið tapaði 1-2 á heimavelli á móti þýska liðinu Borussia Dortmund í toppslagnum í F-riðli Meistaradeildarinnar í fótbolta.

Pólverjinn Robert Lewandowski skoraði sigurmarkið átta mínútum fyrir leikslok úr hnitmiðari skyndisókn en Arsenal-menn höfðu ekki heppnina með sér á heimavelli sínum í kvöld.  Þetta var fyrsta tap Arsenal síðan í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Það er mikil spenna í riðlinum enda eru Arsenal, Napoli og Borussia Dortmund nú öll með sex stig eftir þrjár fyrstu umferðirnar.

Arsenal byrjaði leikinn ekki vel og þetta leit út fyrir að ætla að verða langt kvöld þegar Henrikh Mkhitaryan kom Dortmund yfir á 16. mínútu. Aaron Ramsey tapaði þá boltanum fyrir framan eigin vítateig og Robert Lewandowski kom honum áfram á Armenann Mkhitaryan sem þakkaði fyrir sig og skoraði.

Leikmenn Arsenal gerðu hinsvegar vel í að vinna sig inn í leikinn og áttu skilið að fá jöfnunarmark fyrir hálfleik.

Mats Hummels bjargði frá Tomáš Rosický á marklínu áður en Olivier Giroud jafnaði metin á 41. mínútu eftir hraða sókn. Neven Subotic, varnarmaður Dortmund og markvörðurinn Roman Weidenfeller misstu af fyrirgjöf Bakary Sagna og Giroud var grimmastur á boltann.

Aaron Ramsey kom boltanum í markið á 66. mínútu en dómarinn hafði áður dæmt brot á leikmenn Arsenal.

Santi Cazorla átti síðan skot í skeytin á 69.mínútu eftir flottan undirbúning Mesut Özil.

Arsenal var miklu líklegra til að bæta við marki en það var Dortmund sem tryggði sér sigurinn með marki eftir skyndisókn á 82. mínútu. Robert Lewandowski skoraði þá með skoti úr teignum eftir fyrirgjöf frá Kevin Grosskreutz.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×