Fótbolti

Matthías sá sjötti sem skorar þrennu í norsku úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matthías Vilhjálmsson.
Matthías Vilhjálmsson.
Matthías Vilhjálmsson fór á kostum í 7-0 stórsigri Start á Sandnes Ulf í norsku úrvalsdeildinni í gær en Matthías skoraði þrennu í leiknum. Hann varð þar með sjötti Íslendingurinn sem nær að skora þrennu í norsku úrvalsdeildinni.

Heiðar Helguson var sá fyrsti þegar hann skoraði fernu fyrir Lilleström í ágúst 1999 og þremur árum síðar bættist síðan Ríkharður Daðason í hópinn.

Það liðu síðan fimm ár þar til að það fjölgaði í hópnum en þá skoruðu bæði Stefán Gíslason og Veigar Páll Gunnarsson þrennu. Veigar Páll er sá eini sem hefur skorað fleiri en eina þrennu en hann skoraði einnig þrjú mörk 2008 og 2010.

Björn Bergmann Sigurðarson var síðan nýjasti meðlimurinn í þrennu-klúbbnum áður en Matthías bættist í hópinn í gær.

Matthías Vilhjálmsson kom Start í 2-0 á 32. mínútu með skoti af vítateignum og skoraði síðan þriðja mark liðsins á 48. mínútu af stuttu færi. Matthías innsiglaði síðan þrennuna sína þegar hann kom Start í 5-0 með laglegu skallamarki á 58. mínútu.

Það er hægt að sjá þrennuna hans Matthíasar með því að smella á tengilinn hér

Þrennur íslenskra leikmanna í norsku úrvalsdeildinni:

1. ágúst 1999

Heiðar Helguson - ferna fyrir Lilleström á móti Stabæk

25. ágúst 2002

Ríkharður Daðason - þrenna fyrir Lilleström á móti Start

16. júní 2007

Stefán Gíslason - þrenna fyrir Lyn á móti Brann

16. september 2007

Veigar Páll Gunnarsson - þrenna fyrir Stabæk á móti Odds BK

26. október 2008

Veigar Páll Gunnarsson - þrenna fyrir Stabæk á móti Valerenga

5. júlí 2010

Veigar Páll Gunnarsson - þrenna fyrir Stabæk á móti Molde

13. maí 2012

Björn Bergmann Sigurðarson - þrenna fyrir Lilleström á móti Brann

1. september 2013

Matthías Vilhjálmsson - þrenna fyrir Start á móti Sandnes Ulf




Fleiri fréttir

Sjá meira


×