Fótbolti

Margrét Lára í hópi þeirra markahæstu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Margrét Lára í leik með Kristianstad.
Margrét Lára í leik með Kristianstad. Mynd/Heimasíða Kristianstad
Margrét Lára Viðarsdóttir hefur skorað tíu mörk í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í sumar. Hún er í fjórða sæti yfir markahæstu leikmenn.

Margrét Lára skoraði skallamark í 3-0 sigurleik gegn Mallbacken um helgina eftir undirbúning Johönnu Rasmussen. Þær stöllur eiga það sameiginlegt að hafa leikið með Val á ferli sínum en gera það nú gott með Kristianstad.

Christen Press frá Bandaríkjunum, leikmaður Tyresö, hefur skorað 19 mörk í deildinni og verið í sérflokki í markaskorun. Pernille Mosegaard-Harder hjá Linköping hefur skorað 13 mörk og Anja Mittag hjá LdB Malmö 11 mörk.

Margrét Lára deilir fjórða sætinu með tíu mörk ásamt Jodie Taylor hjá Gautaborg og Söruh Michael hjá KIF Örebro. Sara Björk Gunnarsdóttir hefur skorað næstflest mörk Íslendinga í deildinni eða sex.

Þóra Björg Helgadóttir hefur fengið á sig fæst mörk allra í deildinni í sumar. LdB Malmö hefur aðeins fengið á sig ellefu mörk í 16 leikjum. Liðið tekur á móti Hallberu Guðnýju Gísladóttur og félögum í Piteå í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×