Sport

Kaka snædd og Íslandsmet bætt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Sundsamband Íslands.
Hrafnhildur Lúthersdóttir úr SH gerði sér lítið fyrir og stórbætti Íslandsmet sitt í 50 metra bringusundi á HM í Barcelona á Spáni í morgun.

Hrafnhildur synti metrana fimmtíu á 31,50 sekúndum sem er sekúndu betri tími en hún var skráð inn á og 35/100 betri en Íslandsmetið hennar frá því í fyrra.

Hrafnhildur lenti í 16 sæti í greininni sem er einnig mjög góður árangur því hún var skráð inn í 39 sæti af 86 keppendum.

„Ég er mjög ánægð. Ég held að þetta hafi gengið best því ég var minnst stressuð fyrir þetta," sagði Hrafnhildur í viðtali við Hörð J. Oddfríðarson, formann Sundsambands Íslands.

Hörður spurði hvor kaka sem Hrafnhildur snæddi í gær hafi ekki örugglega hjálpað til. „Kakan góða frá því í gær á örugglega þátt í þessu," sagði Hrafnhildur hress.

Hér að neðan má finna viðtalið við Hrafnhildi á myndbandsformi. Hrafnhildur keppir í undanúrslitum síðdegis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×