Fréttavefur norska ríkisútvarpsins, NRK, vitnar í dag í frétt Vísis frá því á föstudag, að Jón Gnarr borgarstjóri hafi lagt fram tillögu á fundi borgarráðs um að vinaborgasamband Reykjavíkur við Moskvu verði endurskoðað eða því slitið vegna brota á réttindum hinsegin fólks í Moskvu.
Umræðum um tillöguna var frestað en staðgengill borgarstjóra lagði tillöguna fram fyrir borgarstjóra sem er í leyfi. NRK vitnar í Vísi og segir að Jón Gnarr hafi skrifað borgarstjóra Moskvu í ágúst á síðasta ári eftir að Moskvuborg bannaði gleðigöngu hinsegin fólks í borginni. Því bréfi Jóns hafi aldrei verið svarað. Hann telji því eðlilegt að vinaborgasamband borganna, sem tekið var upp með formlegum hætti árið 2007, verði endurskoðað eða því hætt.
Hér má lesa frétt NRK.

