Körfubolti

Jón Arnór: Erum að spila gegn ómennskum leikmönnum

Stefán Árni Pálsson skrifar

Jón Arnór Stefánsson, leikmaður CAI Zaragoza, verður í eldlínunni gegn Real Madrid í undanúrslitum spænsku úrvalsdeildarinnar í körfuknattleik á morgun en Real Madrid vann fyrstu tvo leikina og leiðir því einvígið 2-0. Það lið sem vinnur fyrr þrjá leiki fer áfram í úrslitaeinvígið.

Þriðji leikurinn fer fram í Zaragoza og ætla Jón Arnór og félagar að selja sig dýrt.

„Menn eru kannski fullsaddir eftir seríuna gegn Valencia,“ sagði Jón Arnór Stefánsson, í viðtali við Karfan.is á Spáni.

„Við ætlum okkur að fara út í leikinn til að vinna hann, en við erum samt sem áður að spila á gegn ómennskum leikmönnum.“

„Það er gríðarlega erfitt að halda í við þessa leikmenn á öllum vígstöðum. Þeir eru gríðarlega vel skipulagðir og hafa mörg kerfi til að breyta yfir í og við erum bara í miklum vandræðum með þá.“

„Vonandi mun heimavöllurinn hjálpa okkur á morgun, hann getur skipt sköpum fyrir okkur í raun okkar helsta von, að áhorfendur skapi flott andrúmsloft í höllinni.“

„Þetta lið er með 12 toppklassaleikmenn í sínum hóp og með troðfullan bekk af frábærum leikmönnum. Þetta lið er mun stærra en við í sögulegum skilningi og þetta verður gríðarlega erfitt.“

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu frá Karfan.is við Jón Arnór hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×