Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur, var kampakátur eftir að hans menn urðu Íslandsmeistarar í körfubolta eftir sigur á Stjörnunni.
„Við vorum með þetta lengst af. Svo komast þeir inn í leikinn. Það var skemmtun að klára leikinn svona,“ sagði Sverrir í samtali við Stöð 2 Sport eftir leik og hrósaði sérstaklega Ómari Erni Sævarssyni.
Ómar Örn var dæmdur í sex mánaða bann fyrr í vetur eftir að hann féll á lyfjaprófi. Hann hafði tekið inn ólögleg lyf með því að drekka orkudrykk.
„Ég verð samt að fá að segja að Ómar á stóran þátt í þessu. Hann er frábær leikmaður og gríðarlega mikilvægur í okkar hóp. Hann var dæmdur í bann og fékk því ekki að spila.“
„Ég vil koma því á framfæri að hann á stóran þátt í þessu.“
„Þetta er snilld. Silfurskeið Stjörnunnar er frábær og öflug. Ég held að okkar sveit sé gullskeiðin.“
Ítarleg umfjöllun um leikinn og fleiri viðtöl má finna í fréttinni hér fyrir neðan.
Við erum Gullskeiðin
Tengdar fréttir
Umfjöllun: Grindavík Íslandsmeistari eftir æsilegan oddaleik
Grindavík varð í kvöld Íslandsmeistari í körfubolta eftir magnaðan sigur, 79-74, á Stjörnunni í hreinum úrslitaleik um titilinn. Grindvíkingar voru sterkari lungann af leiknum en Stjörnumenn komu sterkir til baka í lokaleikhlutanum. Það reyndist ekki vera nóg og Grindvíkingar fögnuðu sem óðir í Röstinni í kvöld. Þetta var í fyrsta skipti sem Grindavík tryggir sér Íslandsmeistaratitilinn í Röstinni í Grindavík. Liðið náði því að verja titilinn frá því í fyrra sem er mikið afrek.