Innlent

Bjarni finnur fyrir stuðningi

Karen Kjartansdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í gær að hann væri að íhuga að hætta í stjórnmálum.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í gær að hann væri að íhuga að hætta í stjórnmálum.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist hafa fengið mjög mikinn stuðning og hvatningu um að halda áfram eftir að hann tilkynnti í gær að hann íhugaði að segja af sér  og hvort betra væri fyrir flokkinn að Hanna Birna Kristjánsdóttir tæki við.

Hvernig metur þú stöðu þína í dag?

„Það er svo sem ekkert nýtt í dag, ég tók það fram í gær að ég ætlaði að gefa mér stuttan tíma til að meta þessa stöðu með hliðsjón af bæði minni stöðu og möguleikum flokksins til að hámarka árangur sinn og það hefur ekkert breyst, ég ætla bara að gera það.“

Hvaða viðbrögð hefur þú fengið?

„Ég hef fengið mjög sterk viðbrögð, mjög jákvæð og mikla hvatningu um að halda áfram. Ég er þakklátur fyrir það. Ég ætla bara að gefa mér þennan tíma sem ég var búinn að ákveða að gefa mér.“

Hefur þú heyrt í Hönnu Birnu?

„Já, við höfum talað saman og erum að fara gera það betur og ég hef verið í sambandi við oddvita flokksins út um allt land og aðra trúnaðarmenn.“

Var þetta skipulagt hjá þér í gær eða hvers vegna gerðir þú þetta?

„Nei, þetta var ekkert skipulagt. Það þarf ekkert að skipuleggja það að segja hug sinn. Ég taldi þörf á því að tala hreint um hlutina eins og þeir blasa við mér. “

Ertu sterkari eða veikari í dag?

„Ég skal ekkert segja um það við skulum bara leyfa hverjum degi að nægja sína þjáningu. Ég mun meðal annars reyna að komast að því í dag og á morgun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×