Ekkert varð úr því að Tom Cruise kæmi til Íslands nú síðdegis og ekkert verður úr því að frumsýning myndarinnar Oblivion fari fram í Smárabíói í kvöld.
Frétt sem birtist um að von væri á stórleikaranum í dag vegna sýningar myndarinnar var aprílgabb. Yfir hundrað manns bitu á agnið og pöntuðu sér ókeypis miða á sýninguna með því að senda tölvupóst á ritstjorn Vísis, en þeir verða að bíða um sinn þangað til að myndin verður tekin til sýningar.
Vísir vonar að allir taki vel í þetta grín og að engum hafi orðið meint af því.
Í fréttinni kom fram að Tom Cruise ætlaði að þakka Íslendingum fyrir þá gestrisni sem honum var sýnd á meðan hann var við tökur á myndinni hér á landi síðasta sumar, og bjóða á sérstaka heimsfrumsýningu. Þá sagði einnig að leikarinn ætlaði að mæta sjálfur á svæðið.
Yfir hundrað manns vildu hitta Tom Cruise
