Körfubolti

Helena og félagar komust í undanúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir og félagar hennar í slóvakíska liðinu Good Angels Kosice halda áfram að skrifa sögu félagsins því í dag tryggði liðið sér sæti í undanúrslitum Euroleague en úrslitakeppnina fer fram þessa dagana í Rússlandi.

Good Angels Kosice vann tólf stiga sigur á pólska liðinu Polkowice, 66-54, í lokaleiknum í sínum riðli og tryggði sér með því annað sætið í riðlinum. Heimamenn í UMMC Ekaterinburg unnu alla leiki sína stórt og unnu riðilinn sannfærandi en Good Angels Kosice hafði í betur í baráttunni við Polkowice sem hafði einnig unnið leik sinn á móti Galatasaray.

Good Angels Kosice tók frumkvæðið í öðrum leikhluta sem liðið vann 19-8 en það skilaði Englunum tíu stiga forskoti í hálfleik, 33-23. Good Angels Kosice vann þriðja leikhlutann 14-11 og var því með þrettán stiga forskot fyrir lokaleikhlutann.

Helena fékk að spila í tæpar níu mínútur í þessum leik og tókst ekki að skora en hún var með 2 stolna bolta, 1 frákast og 1 varið skot.

Bandaríski framherjinn Plenette Pierson átti frábæran leik í liði Englanna en hún var með 22 stig, 8 fráköst, 3 stoðsendingar og 3 stolna bolta.

Good Angels Kosice mætir tyrkneska liðinu Fenerbahce í undanúrslitunum sem fara fram á föstudaginn. UMMC Ekaterinburg mætir Bourges Basket frá Frakklandi í hinum leiknum en úrslitaleikurinn er síðan á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×