Örvar Þór Kristjánsson, aðstoðarþjálfari Einars Árna Jóhannssonar hjá karlaliði Njarðvíkur, heldur upp á 36 ára afmæli sitt í dag en afmælisdagurinn mun þó örugglega snúast að mestu í kringum annan leik Njarðvíkur og Snæfells í átta liða úrslitum Dominos-deildar karla.
Leikur Njarðvíkur og Snæfells hefst klukkan 19.15 í Ljónagryfjunni í Njarðvík en hann verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Njarðvíkingar verða að vinna í kvöld til þess að tryggja sér oddaleik í Stykkishólmi á fimmtudagskvöldið en vinni Snæfell leikinn eru Njarðvíkingar komnir í sumarfrí.
Snæfell vann fyrsta leikinn með minnsta mun á föstudagskvöldið eftir að hafa skorað sjö síðustu stig leiksins.
Njarðvíkingar geta því fært aðstoðarþjálfara sínum góða afmælisgjöf en ekki er víst hvort afmælissöngurinn verður sunginn í Ljónagryfjunni í kvöld.
Örvar Þór Kristjánsson vann tvo Íslandsmeistaratitla sem leikmaður með Njarðvík en hann var í Njarðvíkurliðunum sem unnu 1998 og 2006. Seinna árið var Einar Árni þjálfari en Einar var aðstoðarþjálfari Friðriks Inga Rúnarssonar átta árum áður.
Körfubolti