Körfubolti

Helena endaði sem þriðja besta skyttan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Mynd/Heimasíða Good Angels Kosice
Helena Sverrisdóttir varð í 3. sæti yfir bestu þriggja stiga nýtingu í riðlakeppni Euroleague kvenna sem lauk á dögunum. Framundan eru sextán liða úrslit keppninnar þar sem Helena og félagar hennar í Good Angels Kosice eru til alls líklegar.

Helena hitti úr 17 af 36 þriggja stiga skotum sínum sem gerir 47,2 prósent nýtingu. Það voru aðeins liðsfélagi hennar Alexandria Quigley (50 prósent, 28 af 56) og Laura Macchi hjá Famila Schio (50 prósent, 8 af 16) sem nýttu skotin sín betur.

Helena varð í 15. sæti yfir flestar þriggja stiga körfur (1,4 í leik) þrátt fyrir að spila "aðeins" í 16,3 mínútur að meðaltali. Helena var með 6,9 stig og 3,8 fráköst að meðaltali í 12 leikjum sínum með Good Angels Kosice í riðlakeppninni.

Helena náði í sex leikjum að nýta þriggja stiga skotin sín 50 prósent eða betur en hún skoraði þrjá þrista í fjórum leikjum.

Good Angels Kosice liðið vann sinn riðil (9 sigrar og 3 töp) og mætir spænska liðinu Perfumerias Avenida í sextán liða úrslitum. Perfumerias Avenida varð í 4. sæti í sínum riðli með 5 sigra og 7 töp.

Spilað er heima og að heiman og það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst áfram í átta liða úrslitin. Good Angels Kosice er á heimavelli í leik eitt og leik þrjú en fyrsti leikurinn er 19. febrúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×